Erlent

Frjáls eftir að hafa setið saklaus inni í 39 ár

Kjartan Kjartansson skrifar
Coley var rúmlega þrítugur þegar hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi. Hann er nú sjötugur.
Coley var rúmlega þrítugur þegar hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi. Hann er nú sjötugur. Vísir/Getty
Bandarískum manni sem sat í fangelsi í fjóra áratugi fyrir morð á konu og barni hennar hefur verið sleppt eftir að DNA-sannanir sýndu fram á sakleysi hans. Mögulegt er talið að sök hafi verið komið á manninn.

Craig Coley, sem nú er sjötugur, var dæmdur í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn í Kaliforníu árið 1980. Hann var sakfelldur fyrir morðið á fyrrverandi kærustu sinni, Rhondu Wicht, og fjögurra ára gömlum syni hennar, Donald, á heimili konunnar árið 1978.

Wicht var barin og kyrkt en drengurinn kæfður. Coley var handtekinn daginn sem líkin fundus ten þau Wicht höfðu þá nýlega skilið að skiptum. Hann átti engan sakaferil að baki, að því er segir í frétt Reuters.

Lífsýni sem talið var að hefðu glatað en komu í leitirnar á einkarannsóknarstofu komu Coley til bjargar þótt seint væri. Í því fannst erfðaefni úr nokkrum einstaklingum en ekki úr Coley. Lögreglan í Simi-dal, þar sem morðið var framið, hefur aðeins sagt að tæknin til að greina sýnið hafi ekki verið til þegar rannsóknin fór fram á sínum tíma.



Hélt alltaf fram sakleysi sínu

Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu, náðaði Coley í gær á þeim forsendum að hann væri saklaus. Honum var sleppt úr fangelsinu í kjölfarið. Í náðunarbréfinu segir Brown að ekki sé loku fyrir það skotið að sökinni hafi verið komið á Coley. Lofaði Brown jafnframt sæmdina sem Coley hefði sýnt á meðan hann sat saklaus í fangelsi í öll þessi ár.

Coley hefur alla tíð haldið fram sakleysi sínu. Brown segir að í fangelsinu hafi hann forðast gengi og tileinkað sig trú.

Lögreglan í Simi-dal segir málið sorglegt og heitir því að reyna að komast að því hver varð Wicht og syni hennar raunverulega að bana.

Fleiri en 350 manns hafa verið hreinsaðir af sökum með DNA-rannsóknum í Bandaríkjunum frá árinu 1989. Að meðaltali höfðu þeir afplánað í fjórtán ár þegar þeir voru hresinaðir af sökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×