Enski boltinn

Frír bjór í boði fyrir stuðningsmenn Leicester á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamie Vardy.
Jamie Vardy. Vísir/Getty
Mikil sigurhátíð verður hjá Leicester City á morgun þegar liðið fagnar Englandsmeistaratitli sínum eftir leik á móti Everton.

Leicester City tryggði sér titilinn á mánudagskvöldið án þess að spila þökk sé jafntefli Tottenham og Chelsea og stuðningsmenn Leicester City hafa í langan tíma gert nánast allt til að redda sér miða á þennan síðasta heimaleik á þessu ótrúlega tímabili.

Ævintýri Leicester City er engu öðru líkt og það eiga margir erfitt með að trúa því að þeir hafi haldið út og tryggt sér titilinn á undan öllum risunum sem eru í ensku úrvalsdeildinni.

Til að þakka fyrir stuðninginn á tímabilinu þá ætlar Leicester City í samvinnu við bjórframleiðandann Singha Beer að gefa stuðningsmönnum frían bjór á leiknum á morgun.

Allir þeir sem hafa keypt sér miða í gegnum Leicester City fá frían Singha bjór en þeir sem drekka ekki geta fengið vatn. Þeir sem eru ekki orðnir 18 ára munu að sjálfsögðu ekki fá bjór.

Það er reyndar bara einn bjór á hvern miða og bjórinn verður aðeins afhentur í tvo tíma fyrir leikinn. Það þarf enginn að efast um það að þeir sem hafa yfir höfuð redda sér miða á þennan sögulega leik verða örugglega mættir Filbert Way löngu fyrir fyrsta flaut.

Leikur Leicester City og Everton á King Power leikvanginum í Leicester hefst klukkan 16.30 að íslenskum tíma og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

Það er hægt að lesa um þetta sigurtilboð á heimasíðu Leicester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×