Skoðun

Friður er stærsta hagsmunamál mannkynsins

Elsa Benediktsdóttir skrifar
Fyrir stuttu komu upplýsingar frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) um að 4.5 milljónir barna hafi hrökklast af heimilum sínum og séu á flótta í heiminum. Þessa sorglegu staðreynd verður mannkynið að fást við eins vel og það getur. En á sama tíma þarf að hugsa lengra og hugleiða hvaða leiðir mannkynið getur farið til að koma í veg fyrir stríð og afleiðingar þeirra.  Að gera ráð fyrir að stríð verði ávallt óhjákvæmilegur þáttur i lífi mannkynsins mun ekki leiða okkur þangað. Að trúa því að friður sé mögulegur er skref í átt að breytingu.

Eins og mörg ykkar vita lagði undirrituð af stað með friðarverkefni sem felst í að senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna bréf með áskorun um að kalla ráðamenn heimsins á fund til að leita allra leiða til að koma á varanlegum friði. Það óvænta er að undirskriftirnar hafa komið frá 47 löndum og frá öllum heimsálfum en fjöldi undirskrifta hins vegar verið langt undir væntingum. Fyrstu 3 vikurnar kom þokkalega góð bylgja af undirskriftum en hefur nú hægt verulega á sér og ef ekkert breytist mun þetta fljótlega lognast alveg út af.  

Í bréfinu til aðalritarans segir m.a.: ,,Sá tími er kominn að við, íbúar heimsins,  viljum ekki lengur umbera stríð og ógæfusamar afleiðingar þeirra.‘‘  Þetta var sannfæring mín þegar ég lagði af stað með undirskriftasöfnunina. Fannst þetta verkefni ákveðinn farvegur þar sem fólk gæti tjáð hug sinn og hvatt og stutt aðalritara S.þ. til að knýja á um fund sem yrði upphaf að varanlegum breytingum á fyrirkomulagi öryggismála heimsins.  

Fólk kann að spyrja hvort hægt sé að koma á friði? Það að stríð eru enn háð á okkar tímum, sannar ekki að ófriður sé varanlegur fylgifiskur mannlegra samskipta. Atriði sem stuðla að friðsamlegum lausnum frá smæstu samfélögum til hinna stærstu eru áþekk í eðli sínu en rammann til að nýta þau á heimsvísu vantar.

Sjálf bý ég í blokk þar sem húsfélagið hefur kosið sér stjórn til að sjá um verkefni sem upp koma. Þetta litla samfélag sem býr þar treystir því að stjórnin takist á við hvern vanda sem upp kemur og leysi hann með stuðningi íbúanna. Væri staðan sú að 5 íbúðir hefðu neitunarvald, og jafnvel aðeins ein af þessum íbúðum gæti komið í veg fyrir framkvæmd ákvarðana stjórnarinnar, myndi ég ekki vilja búa þar.  En þannig er staða Öryggisráðs S.þ. í dag, að 5 ákveðnar þjóðir hafa neitunarvald á ákvarðanir Öryggisráðsins. Þetta gamla fyrirkomulag hefur ekki reynst vel til að tryggja öryggi heimsins í dag og því þörf á nýrri hugsun og breytingum. Þessi grein er framlag í slíka umræðu og ef einhver hefur trú á að það skipti máli að taka þátt í verkefninu er bréfið til aðalritarans að finna hér að neðan.



https://secure.avaaz.org/en/petition/The_SecretaryGeneral_of_the_United_Nations_Call_an_urgent_meeting_of_world_leaders/?eEfyaab




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×