Fótbolti

Freyr: Stundum eins og við séum að kreista vatn úr steini

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Freyr Alexandersson þakkar fyrir leikinn.
Freyr Alexandersson þakkar fyrir leikinn. vísir/getty
„Fyrst og síðast vonbrigði. Þetta kláraðist ekki í kvöld. Þetta var erfiðasti leikurinn tilfinningalega séð,“ sagði landsliðsþjálfarinn Freyr Alexandersson í samtali við Eddu Sif Pálsdóttur á RÚV eftir 0-3 tap Íslands fyrir Austurríki í lokaumferð riðlakeppninnar á EM 2017.

Fyrir leikinn var ljóst að Ísland ætti ekki lengur möguleika á að komast í 8-liða úrslit en þangað var stefnan sett fyrir mót.

„Þegar við fengum á okkur þetta fyrsta mark var ég hræddur um að þetta myndi gerast; að við myndum fá á okkur annað mark fljótlega aftur því við vorum ekki vel stemmdar í dag. Þetta var mjög lærdómsríkur leikur og allt í kringum hann,“ sagði Freyr.

„Við ætluðum okkur að fara áfram og sjáum ekkert eftir því. Leikurinn í dag var undarlegur og erfiður,“ bætti þjálfarinn við.

En var þetta ekki slakasti leikur Ísland á mótinu?

„Jú, örugglega. Ég átta mig ekki á því. Það er mjög erfitt að spila við þær og við ekki í lagi í kollinum og náum ekki að vinna okkur út úr því. Þá verður leikurinn bara lélegur. Þær refsuðu og voru miklu betri,“ sagði Freyr.

Frammistaða Íslands á EM olli vonbrigðum og niðurstaðan var í samræmi í það. Íslendingar töpuðu öllum þremur leikjum sínum og enduðu í neðsta sæti riðilsins.

„Niðurstaðan er margþætt. Í fyrsta lagi vorum við nálægt því að fá eitthvað út úr fyrstu tveimur leikjunum og sýndum að við getum alveg verið nálægt þessum betri þjóðum,“ sagði Freyr.

„Við þurfum samt að hafa ofboðslega mikið fyrir öllum hlutum og það er stundum eins og við séum að kreista vatn úr steini. Það er rosalega mikil vinna sem við þurfum að leggja á okkur til að fá eitthvað út úr þessu á þessum vettvangi. Við þurfum að leggjast yfir það hvað er best fyrir okkur til að halda dampi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×