Fótbolti

Freyr: Dagný er alveg grjóthörð og segist vera heil

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta er mætt til Portúgal þar sem það hefur leik á Algarve-mótinu á morgun.

„Við fáum frábært veður hérna á fyrsta heila degi. Völlurinn er góður og flestir leikmenn heilir heilsu. Þetta eru frábærar aðstæður til að undirbúa okkur,“ segir Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, í viðtali við KSÍ.

Aðspurður um ástandið á leikmannahópnum segir Freyr tvær stúlkur vera tæpar fyrir morgundaginn.

„Katrín Ómarsdóttir fékk höfuðhögg í síðustu viku sem er alltaf varasamt en henni líður mjög vel. Við erum aðeins að passa upp á hana,“ segir hann.

„Dagný Brynjarsdóttir var að spila á sunnudaginn í Þýskalandi og fékk þar nokkur högg. Hún er auðvitað grjóthörð og segir það sé allt í lagi með sig en hún verður róleg í dag. Við sjáum til á morgun með leikinn hvernig hún stendur.“

Sviss vann Ísland í tvígang í síðustu undankeppni þannig Freyr veit hvað þarf að verast. „Sama og við höfum verið að lenda í. Þetta er ótrúlega vel spilandi lið, vel skipulagt með rosalegan styrkleika í hröðum sóknum sem við höfum átt erfitt með,“ segir Freyr.

„Við höfum átt erfitt með að verjast hröðum sóknum þannig við ætlum að nýta daginn á morgun í að æfa lágpressuna sem við ætlum að blanda inn í okkar leik fyrir næstu undankeppni.“

„Við ætlum að reyna loka þeim svæðum sem þær hafa ógnað okkur í síðustu tveimur leikjum og sjá hvort það skilar betri niðurstöðu. Fyrst og fremst ætlum við að setja mikla einbeitingu á frammistöðu okkar í varnarleiknum og lágpressunni,“ segir Freyr Alexandersson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×