Innlent

Fréttir vikunnar á Vísi: Bjössi í World Class, barin grátandi kona og Caruso-slagurinn

Jakob Bjarnar skrifar
Bjössi í World Class og Íris Hildur, sem greindi frá afdrifaríkum samskiptum þeirra fyrir tveimur árum. Ein af fréttum vikunnar.
Bjössi í World Class og Íris Hildur, sem greindi frá afdrifaríkum samskiptum þeirra fyrir tveimur árum. Ein af fréttum vikunnar.
Fjárlög urðu að lögum í vikunni og voru ýmsar eftirtektarverðar fréttir sem tengdust því. En, þó augu margra hafi verið á gjörðum ríkisstjórnarinnar, svo sem rithöfunda vegna hækkunar á virðisaukaskatti á bækur og svo þeirra sem láta sig hag Ríkisútvarpsins varða – en þar segja stjórnendur að við blasi niðurskurður, var það gamalt mál sem helst vakti athygli meðal lesenda Vísis. 

Hann Bjössi í World Class

Fyrrverandi starfsmaður líkamsræktarstöðvarinnar World Class greindi frá því að fyrir um tveimur árum hafi eigandinn Björn Leifsson, eða Bjössi í World Class, sýnt sér fádæma ruddaskap, eða sagt henni að það gengi ekki að feit í afgreiðslunni. Margir urðu vitni að þessu og var niðurlægingin slík að stúlkan, sem heitir Hildur Íris Birgisdóttir, þurfti að leita sér sálfræðiaðstoðar til að vinna sig út úr áfallinu. Björn Leifsson hefur ekkert viljað láta hafa eftir sér um málið – þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Vísis til að heyra hans hlið.

Frásögn Bryndísar Heru af grátandi konu í Hagkaupum vakti mikla athygli.
Barin, grátandi kona

Þá vakti sagan um grátandi konu í Hagkaupum forvitni manna en Vísir greindi frá því að fjöldi manna hafi gengið fram hjá konu í nauðum. Eða allt þar til Bryndís Hera Gísladóttir átti leið hjá. Hún lánaði konunni síma sinn og gat hún þá hringt í dóttur sína sem kom til bjargar. Að sögn Bryndísar Heru hafði þá konan verið lamin illa af eiginmanni sínum. Vísi tókst ekki að fá það staðfest hjá lögreglu. Bryndís Hera hins vegar greindi frá því hvað konan hafði sagt og var það mikil rauna saga af samskiptum við hinn meinta ofbeldismann.

Það er svo aukaflétta á þessari sögu, og allt annars eðlis, að Bryndís Hera hefur að undanförnu vakið athygli fyrir hlutverk í myndbandi Egils Einarssonar – en Vísir hefur greint frá því að það hefur farið um netið víða um heim og eru fjórar milljónir nú búnar að berja það augum.

Málið með stólana í Raðhúsinu vakti mikla athygli í vikunni.
Húsgögnin í ráðhúsinu

Þá sagði Vísir frá vandræðum borgaryfirvalda en það má heita nokkuð neyðarlegt fyrir þá í ráðhúsinu að húsgögn þar eru eftirlíkingar og hefur hönnuðurinn farið fram á að þeim verði fargað. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir blóðugt að þurfa að henda á haugana ágætum húsgögnum en hann skilur hins vegar þau sjónarmið að standa þurfi vörð um höfundarétt. Fjöldi manna hefur sett sig í samband við borgarstjóra og boðist til að losa hann við sófana.

Ólafur Arnalds lenti í því að þurfa að eiga við staðfasta tollverði.
Tollaraunir

Það þarf kannski ekki að koma á óvart, nú svo skömmu fyrir hátíðar þegar margir þurfa að eiga í viðskiptum við tollinn; varðandi sendingar til ástvina erlendis, að hremmingar tónlistarmannsins Ólafs Arnalds hafi vakið athygli.

Vísir greindi frá raunum hans en honum hefur ekki tekist að leysa málverk úr tollinum sem voru gjöf frá vini hans. Það vantaði nefnilega reikninginn fyrir gjöfinni. Hann þarf að liggja fyrir en Ólafur Arnalds á í stökustu vandræðum með að verðleggja málverkið. Ber að miða við kostnað strigans og litanna eða hvað?

Þessar raunir tónlistarmannsins lögðust þó ekki mjög þungt á hann, Ólafur Arnalds sagðist oft hafa lent í svipuðu og því reynslunnar smiður í því að eiga við tollara.

Lögregla og starfsmenn fyrir framan Caruso. Vísir hefur fylgst með gangi mála.
Caruso-slagurinn

Vísir hefur í vikunni fylgst með átökum eiganda og eiganda rekstrar í hinum fornfræga veitingastað Caruso við Þingholtsstræti. Eigandinn José hefur verið með rekstur þar nú í 15 ár en nú vill eigandinn fá hann út. Og lét til skara skríða, fjórir vörpulegir menn mættu morgun einn, skiptu um skrá og læstu eigendur og starfsmenn úti. Sögur af þessum viðskiptum eru einhliða, því eigandinn Valdimar Jónsson vill ekki tjá sig um málið, en sögur eiganda og starfsfólks af viðskiptum við Valdimar eru dramatískar. José segir til dæmis að hann vilji nú hækka leiguna úr 1,4 milljónum uppí 3,5 á mánuði, hann vilji bola sér út, taka yfir reksturinn og meira að segja hafi hann gengið svo langt, eftir að hafa komist í rekstrarbækur að afboða pantanir auk þess sem hann hefur gert starfsfólki atvinnutilboð. Lögreglan hefur haft afskipti af málinu og fjöldi manna fylgst með væringunum enda staðsetning staðarins í hjarta borgarinnar. Fréttir af Caruso-slagnum vöktu mikla athygli og er ekki séð fyrir enda á því enn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×