Erlent

Fréttamenn sendir í vírverksmiðju

Birta Björnsdóttir skrifar
Verkamannaflokkurinn hélt síðast flokksþing árið 1980. Þá tilkynnti Kim Il-sung, þáverandi leiðtogi Norður-Kóreu, son sinn Kim Jong-il sem arftaka sinn. Því velta erlendir fjölmiðlar fyrir sér hvort nýr framtíðarleiðtogi landsins verði kynntur á þinginu.

Kosið verður í nýja miðstjórn flokksins, sem í kjölfarið velur framkvæmdastjórn. Líklegt þykir að bandamenn Kim Yong-un verði þar fyrir valinu en fregnir af aftökum á embættismönnum úr röðum æðstu ráðamanna þjóðarinnar hafa verið þrálátar undanfarin misseri.

Í þingsetningarræðu sinni lýsti Kim Jong-un yfir velþóknun sinni með þann árangur sem náðst hefur í landinu á sviði tilrauna með kjarnavopn.

Erlendum fjölmiðlamönnum var boðið til landsins til að fjalla um flokksþingið. Þeir fengu þó ekki að sitja þingið sjálft en var í staðin boðið í kynnisferð um kopar- og álvíra verksmiðju.

„Þetta er Norður-Kórea. Ég gleðst yfir því að koma hingað og að við fáum að vera fyrir utan. En það er gremjulegt að fá hvorki aðgang né upplýsingar. Það að okkur hafi verið boðið að skoða víraverksmiðju nú síðdegis tengist á engan hátt erindi okkar hingað. Við gengum um og ræddum við verksmiðjustjórann á meðan við vitum að annað og meira er að gerast í borginni," segir Anna Fifield, blaðamaður hjá Washington Post í Tokyo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×