Erlent

Fréttamenn sakaðir um landráð vegna uppljóstrana

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Markus Beckedahl og Andre Meister, tveir af helstu forsprökkum fréttavefsins Netzpolitik.org, á mótmælafundi í Berlín um helgina.
Markus Beckedahl og Andre Meister, tveir af helstu forsprökkum fréttavefsins Netzpolitik.org, á mótmælafundi í Berlín um helgina. vísir/epa
Aðalsaksóknari þýska ríkisins, Harald Range, var í gær rekinn af Heiki Maas dómsmálaráðherra.

Range hafði frábeðið sér öll afskipti stjórnmálamanna af málaferlum gegn fréttavefnum Netzpolitik.org, sem sérhæfir sig í umfjöllun um netfrelsi og hefur fengið verðlaun fyrir starfsemi sína.

Saksóknaraembættið hefur ákært stjórnendur vefsins fyrir landráð. Uppsögn Range tók gildi strax í gær.

Í apríl síðastliðnum birti vefurinn upplýsingar úr leyniskjölum um starfsemi nýstofnaðrar deildar innan þýsku leyniþjónustunnar, en sú deild fær það hlutverk að sinna víðtæku eftirliti með netinu.

Í kjölfarið kærði leyniþjónustan fréttavefinn fyrir landráð og saksóknarinn brást við með því að höfða mál á hendur stjórnendum síðunnar. Leyniskjölin, sem fréttavefurinn birti, hafi verið ríkisleyndarmál og birting þeirra varði því við lög um landráð.

Í Þýskalandi hefur verið efnt til mótmæla gegn ákærunni og áhrifamiklir þýskir stjórnmálamenn, þar á meðal bæði Angela Merkel kanslari og Heiko Maas dómsmálaráðherra, hafa komið fréttasíðunni til varnar.

Maas sagðist efast um að skjölin innihéldu svo alvarleg leyndarmál að birting þeirra stofnaði öryggi landsins í hættu. Þá sagði hann ekki síður mikilvægt að koma fjölmiðlafrelsinu til varnar.

Á mánudag sagði talsmaður þýsku stjórnarinnar að dómsmálaráðherrann hefði í þessu máli fullan stuðning Merkel kanslara. Þá hefur Thomas de Maiziere innanríkisráðherra tekið undir með Maas og lýst efasemdum um réttmæti landráðaákærunnar.

Saksóknarinn fyrrverandi segir þessi afskipti stjórnmálamanna vera ólíðandi. Þeir séu að reyna að hafa áhrif á rannsókn málsins vegna þess að niðurstöðurnar gætu orðið óþægilegar. „Við látum ekki þagga niður í okkur,“ segir hins vegar Andre Meister, bloggari á Netzpolitik.org og einn af stofnendum fréttasíðunnar. Hann segist líta á ákæruna sem beina árás á fjölmiðlafrelsið: „Það er langt síðan gengið hefur verið jafn hart fram gegn blaðamönnum og heimildarmönnum þeirra hér í Þýskalandi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×