Innlent

Fréttamaður gagnrýndur fyrir að spyrja Svíaprinsessu um fortíð afa hennar

Birgir Olgeirsson skrifar
Viktoría Svíaprinsessa
Viktoría Svíaprinsessa Getty
Fréttamaður sænska ríkissjónvarpsins hefur mætt mikilli gagnrýni fyrir að hafa spurt Viktoríu Svíaprinsessu um fortíð fjölskyldu hennar við minningarathöfn í Auschwitz í Póllandi í gær.

Viktoría var á meðal þeirra sem minntust þess að 70 ár eru frá því að her Sovétríkjanna frelsaði þá sem voru í haldi nasista í útrýmingarbúðunum í Auschwitz.

„Hefur þú velt fyrir þér sögu fjölskyldu þinnar,“ spurði Rolf Fredriksson, fréttamaður sænska ríkisútvarpsins, Svíaprinsessuna sem stóð við hlið tveggja eftirlifenda helfararinnar.

„Þú átt ættingja sem studdu nasista,“ sagði Fredriksson við Viktoríu áður en hann rifjaði upp afrek frænda hennar Folke Bernadotte sem bjargaði þúsundum úr útrýmingarbúðum nasista.

Prinsessan svaraði ekki spurningunni beint en sagði: „Nasismi er eitt það versta í mannkynssögunni.“ Talsmenn sænsku konungshallarinnar hafa gagnrýnt þessa spurningu fréttamannsins og þá var hún einnig gagnrýnd á samfélagsmiðlum. Rolf Fredriksson varði spurninguna á samfélagsmiðlinum Twitter en þar sagði hann að ekki væri hægt að kenna Viktoríu um afglöp fyrri kynslóða en henni bæri að svara fyrir það.

Móðir Viktoríu, Silvía Svíadrottning, fæddist í Þýskalandi árið 1943 en hún er dóttir Walthers Sommerlath og Alice de Toledo Sommerlath.

Walther gekk til liðs við nasistaflokkinn árið 1934 en hann var sakaður um að hafa tekið þátt í herferð gegn gyðingum eftir að hann keypti málmsmíðistöð gyðings langt undir markaðsvirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×