Erlent

Fréttamaður 60 mínútna sakaður um kynferðislega áreitni

Kjartan Kjartansson skrifar
Rose stýrir sjónvarpsþætti undir eigin nafni á PBS, er einn stjórnenda morgunþáttar CBS og hefur unnið fyrir 60 mínútur.
Rose stýrir sjónvarpsþætti undir eigin nafni á PBS, er einn stjórnenda morgunþáttar CBS og hefur unnið fyrir 60 mínútur. Vísir/AFP

Átta konur sem hafa unnið með bandaríska sjónvarpsmanninum Charlie Rose segja að hann hafi áreitt þær kynferðislega með ýmsum hætti. Rose, sem hefur meðal annars starfað fyrir fréttaskýringaþáttinn 60 mínútur, þuklaði meðal annars á konunum og gekk ítrekað nakinn um í návist þeirra.

Washington Post greindi frá ásökunum kvennanna í kvöld. Þær unnu fyrir eða sóttust eftir vinnu við samnefndan sjónvarpsþátt Charlie Rose frá seinni hluta 10. áratugarins til 2011. Þær voru á aldrinum 21 til 37 ára þegar atvikin sem þær lýsa áttu sér stað.

Þrjár kvennanna koma fram undir nafni en fimm aðrar þorðu ekki að láta nafns síns getið af ótta við Rose og áhrif hans innan fjölmiðlaheimsins í Bandaríkjunum.

Þær lýsa áreiti sem fólst meðal annars í að Rose legði hönd á innanverð læri þeirra, brjóst o grass. Tvær þeirra segja að Rose hafi ítrekað komið nakinn fram úr sturtu fyrir framan þær. Aðrar lýsa því að hann hafi hringt í þær seint að kvöldi eða snemma morguns og lýst fyrir þeim kynferðislegum draumórum sínum um þær.

Í yfirlýsingu til Washington Post segir Rose að hann biðjist innilega afsökunar á gjörðum sínum sem hafi verið óviðeigandi. Hann efast þó um að allar ásakanir kvennanna eigi sér stoð í raunveruleikanum.

„Ég hélt alltaf að ég væri að eltast við sameiginlegar tilfinningar þó að ég geri mér nú grein fyrir að mér skjátlaðist,“ segir Rose sem er 75 ára gamall og fullyrðir að hann hafi öðlast nýja og djúpa virðingu fyrir konum og lífi þeirra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×