Innlent

Frekari ákvarðanir teknar að lokinni yfirheyrslu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Skipverjinn var handtekinn 18. janúar síðastliðinn.
Skipverjinn var handtekinn 18. janúar síðastliðinn. vísir/anton brink
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort krafist verður áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir manninum sem grunaður er um að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana, en sú ákvörðun ætti að liggja fyrir í dag eða í fyrramálið, að sögn Gríms Grímssonar, sem stýrir rannsókn málsins. Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir skipverjanum rennur að óbreyttu út á morgun.

Maðurinn verður yfirheyrður í dag, í fyrsta sinn frá því á föstudag, en Grímur vill ekki tjá sig um hvort það er gert á grundvelli nýrra upplýsinga. Hann segir hins vegar að lögreglu sé enn að berast nýjar upplýsingar varðandi málið. Þær séu allar skoðaðar nánar – sumar skili engum árangri en að aðrar skýri heildarmyndina betur.

Þá er niðurstaðna úr rannsóknum á lífsýnum, sem send voru til Svíþjóðar fyrir rúmum þremur vikum, enn beðið. Grímur segir að þeirra sé að vænta hvað og hverju, enda sé málið í forgangi. Aðspurður segir hann biðina ekki orðna óeðlilega langa.

Játning liggur ekki fyrir í málinu.

Maðurinn sem grunaður er var skipverji á togaranum Polar Nanoq en hann var handtekinn 18. janúar síðastliðinn og hefur setið í einangrun síðan þá. Lögregla og ákæruvald hafa tólf vikur til þess að gefa út ákæru frá handtöku. Unnið er að því að safna gögnum í málinu sem síðan verða send héraðssaksóknara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×