Fótbolti

Freddy Adu sendur heim frá Serbíu

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
Það hefur ekki alveg ræst úr Freddy Adu.
Það hefur ekki alveg ræst úr Freddy Adu. vísir/getty
Freddy Adu, maðurinn sem eitt sinn átti að vera framtíð og bjargvættur bandaríska landsliðsins í knattspyrnu, er aftur orðinn atvinnulaus.

Hann var leystur undan samningi hjá serbneska úrvalsdeildarliðinu FK Jagodina á dögunum, en hann spilaði ekki leik fyrir liðið á því hálfa ári sem hann var á mála hjá því.

Adu hefur aðeins spilað 59 mínútur síðan MLS-deildin árið 2012 leið undir lok, en þær mínútur fékk hann hjá brasilíska liðinu EC Bahia. Hann var áður á mála hjá Philadelphia Union í Bandaríkjunum.

Ferill Adu hefur verið með eindæmum vandræðalegur í ljósi þess hvernig talað var um hann í æsku, en hann var sagður á meðal efnilegustu leikmanna heims fyrir tæpum áratug.

Í febrúar á þessu ári vildi liðið Atlanta Silverbacks fá hann til sín, en það spilar í NASL sem er bandaríska B-deildin. Atlanta-liðið biðlaði til hans á opinberum vettvangi en Adu hafði ekki fyrir því að svara liðinu.

Nú er spurning hvar hann fær annað tækifæri, en Adu er ekki nema 25 ára gamall þó hann hafi verið reglulega í fréttum frá því hann var 15 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×