Handbolti

Franskur úrslitaleikur í Köln

Anton Ingi Leifsson skrifar
Montpellier er komið í úrslitaleikinn.
Montpellier er komið í úrslitaleikinn. vísir/getty
Það verður franskur úrslitaleikur í Meistaradeildinni í handbolta þetta árið en Monpellier lagði Vardar að velli, 28-27, í síðari undanúrslitaleiknum í Köln í dag.

Montpellier var þremur mörkum yfir í hálfleik, 14-11, en síðari hálfleikurinn var mjög svo spennandi. Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæmdu leikinn og þóttist takast vel til.

Jafnt var á öllum tölum er ein mínúta var eftir af leiknum en sigurmarkið skoraði Argentínumaðurinn Diego Simonet tuttugu sekúndum fyrir leikslok.

Vardar tók leikhlé og freistaði þess að jafna en síðasta sóknin var vandræðaleg og Vuko Borozan tók neyðarskot er átta sekúndur voru eftir. Honum brást bogalistinn.

Montpellier er því komið í úrslitin þar sem þeir mæta Nantes á morgun en Vardar spilar við PSG um þriðja sætið. Allir leikirnir fara fram í Köln.

Valentin Porte skoraði átta mörk fyrir Montpellier og Melvyn Richardson gerði sex. Luka Cindric og Vuko Borozan voru markahæstir hjá Vardar með sex mörk hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×