Erlent

Franskur maður fær þriðja andlitið

Sigurgeir Ingi Þorkelsson Eyvinds skrifar
Laurent Lantieri, til vinstri, sérhæfir sig í húðágræðslum. Til hægri má sjá myndir af sjúklingnum og andlitunum þremur.
Laurent Lantieri, til vinstri, sérhæfir sig í húðágræðslum. Til hægri má sjá myndir af sjúklingnum og andlitunum þremur. Vísir / AFP
Frakkinn Jérôme Hamon hefur undirgengist andlitságræðslu í annað skiptið á ævinni. Er hann þar með fyrsta manneskjan til að hafa undirgengist aðgerðina tvisvar sinnum.

Hamon þjáist af alvarlegum arfgengum sjúkdómi sem veldur æxlisvexti í andliti.

Hamon gekkst undir fyrri aðgerðina árið 2010 en fyrir hana var hann orðinn hræðilega afmyndaður í andliti. Eftir aðgerðina þurfti hann svo að taka lyf sem komu í veg fyrir að líkaminn hafnaði andlitinu.

Árið 2015 fékk hann kvef sem hann tók sýklalyf við. Lyfin höfðu þau leiðinlegu áhrif að þau lyf sem Hamon var að taka vegna ágræðslunnar misstu virkni sína og byrjaði líkaminn í kjölfarið að hafna ágræðslunni.

Í nóvember á síðasta ári var ástandið orðið gífurlega slæmt. Drep var komið í húðina og þurfti að taka andlitið af Hamon. Hann þurfti í kjölfarið að búa á spítala andlitslaus uns hann gæti aftur gengist undir andlitságræðslu. Meðan að á biðinni stóð gat Hamon hvorki talað, heyrt né séð.

Að lokum barst þó andlit sem hægt var að græða á Hamon en aðgerðin tókst vel. 

Sjúklingurinn er sjálfur hæstánægður með niðurstöðuna. „Ég er 43 ára og gjafinn var 22 ára svo að ég er orðinn 22 ára aftur,“ sagði Jérôme Hamon í viðtali við franska sjónvarpsstöð.

BBC greinir frá.

 


Tengdar fréttir

Fyrsta andlitságræðsla sögunnar framkvæmd í Frakklandi

Læknar í Frakklandi hafa gert fyrstu andlitságræðslu sögunnar. Aðgerðin heppnaðist vel að sögn lækna en hennar var þörf eftir að hundur konunnar beit hana í andlitið þegar hann reyndi að vekja hana eftir að hún reyndi að svipta sig lífi.

Kínverji fékk nýtt andlit

Önnur andlitságræðsla sögunnar fór fram í Kína í gær. Aðgerðin, sem tók meira en hálfan sólarhring, heppnaðist með ágætum. Aðgerðin er sú fyrsta sinnar tegundar í Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×