Erlent

Franskur lögregluþjónn myrti þrjá í norðurhluta Parísar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Lögregluþjónn í norðurhluta Parísar hóf skotárás með þeim afleiðingum að þrír létust og aðrir þrír særðust.
Lögregluþjónn í norðurhluta Parísar hóf skotárás með þeim afleiðingum að þrír létust og aðrir þrír særðust. Vísir/AFP
Franskur lögregluþjónn skaut þrjár manneskjur til bana áður en hann tók eigið líf í norðurhluta Parísar seint í gærkvöldi. Dagblaðið Le Monde greindi fyrst frá þessu. Lögregluþjónninn hóf skotárás með þeim afleiðingum að þrír létust og aðrir þrír særðust.

Faðir kærustu árásarmannsins lést í árásinni auk tveggja vegfarenda sem áttu leið hjá í bænum Sarcelles. Þá særðust kærasta hans og móðir hennar og systir í skotárásinni. Maðurinn skaut kærustuna sína í andlitið.

Bæjarstjórinn í Sarcelles sagði að kærasta árásarmannsins hefði nýlega gert lögregluþjóninum og ofbeldismanninum það ljóst að hún hygðist slíta sambandinu. 

Vopnið sem árásarmaðurinn hafði um hönd var byssa sem honum var gert að bera þegar hann var á lögregluvakt.

Eftir að hafa skotið kærustu sína,móður hennar, föður og systur, tók hann eigið líf að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins BBC. Líkið af manninum fannst í garði nærliggjandi húss við vettvang árásarinnar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×