Erlent

Franskur faðir tapar baráttu sinni

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 29 ára Yoan Delorme ræddi við fjölmiðla eftir að niðurstaða lá fyrir.
Hinn 29 ára Yoan Delorme ræddi við fjölmiðla eftir að niðurstaða lá fyrir. Vísir/AFP
Franskur áfrýjunardómstóll hefur hafnað kröfu fransks föður um forræði yfir líffræðilegum syni sínum sem móðir drengsins hafði boðið til ættleiðingar.

Hinn 29 ára Yoan Delorme var í fangelsi þegar sonur hans fæddist og barnsmóðir hans skrifaði hvorugt nafn foreldranna á fæðingarvottorð barnsins. Dómstóll í Nantes hafði áður úrskurðað Delorme í vil, en fulltrúar yfirvalda áfrýjuðu málinu og sögðu barnið hafa aðlagast vel í faðmi nýrrar fósturfjölskyldu.

Delorme hyggst áfrýja þessum nýja dómi til æðsta dómstóls Frakklands og Mannréttindadómstóls Evrópu ef þörf krefur.

Í frétt BBC kemur fram að áfrýjunardómstóllinn hafi einnig úrskurðað að Delorme hafi ekki rétt til að hitta son sinn.  „Þetta er þjófnaður af hálfu dómstólsins,“ sagði Delorme í samtali við fréttamenn þegar niðurstaðan lá fyrir.

Til fósturforeldra tveggja mánaða

Delorme var ekki í neinu sambandi við barnsmóður sína eftir að hún var komin þrjá mánuði á leið, en drengurinn kom í heiminn í aprílmánuði 2013. Delorme fullyrðir að hann hafi ekki vitað til þess að hann hafi ekki verið skráður sem faðir barnsins.

Drengnum var svo komið fyrir í forsjá fósturfjölskyldu í Loire-Atlantique í vesturhluta Frakklands í júlímánuði 2013, þegar barnið var rúmlega tveggja mánaða gamalt. Nokkrum klukkustundum síðar, sama dag, krafðist Delorme þess að drengurinn yrði ekki ættleiddur og fullyrti að hann væri faðir barnsins.

Yfirvöld sögðu hann hins vegar ekki hafa greint frá fyrirætlunum sínum varðandi drenginn og hvort hann hafi ætlað að sjá um barnið.

Fósturforeldrar drengsins eru báðir á fimmtugsaldri og segja lögmenn þeirra að þau hafi upplifað „helvíti“ í tengslum við þetta mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×