Viðskipti innlent

Fram­kvæmda­stjóri KEA fékk fimm milljóna króna launa­hækkun á milli ára

Birgir Olgeirsson og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA.
Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA.
Laun og þóknanir til stjórnar og stjórnenda Kaupfélags Eyfirðinga, KEA, námu rúmum 32 milljónum króna árið 2014. Þetta kemur fram í ársskýrslu KEA sem lögð var fram á aðalfundi fyrirtækisins í gærkvöldi. Þar kemur fram að Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, var með 23,6 milljónir króna í laun fyrir árið 2014 eða tæplega tvær milljónir á mánuði en RÚV veitti þessu fyrst athygli.

Árið 2013 var Halldór með 18,2 milljónir króna í árslaun og hefur því hækkað um rúmar fimm milljónir króna í launum á milli ára. Árið á undan var hann með tæpar 17 milljónir í árslaun.

Hagnaður KEA á síðasta ári nam 467 milljónum króna eftir skatta en var 227 milljónir árið áður. Tekjur námu tæpum 650 milljónum króna og hækkuðu um 250 milljónir á milli ára. Eigið fé er nú rúmir 5,3 milljarðar króna og heildareignir tæpir 6 milljarðar.

Niðurstaðan viðunandi

Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri segir niðurstöðu ársins viðunandi á heimasíðu KEA.

„Flest þeirra fyrirtækja sem KEA á eignarhluti í gengu vel á síðasta ári og endurspeglast það í um 350 milljóna króna jákvæðri gangvirðisbreytingu fjáreigna.“

Halldór segir að fjárfest hafi verið í fyrirtækjum fyrir um hálfan milljarð á liðnu ári.

„KEA hefur enn töluvert af sínum eignum í lausu fé sem bíður fjárfestinga í fyrirtækjum og á meðan svo er hefur það nokkur áhrif á arðsemi félagsins þar sem ávöxtun af lausu fé er ekki sérlega há.“

Arðsemi eigenda félagsins sé mjög góð sé einnig horft til þeirra viðskiptakjara sem eigendur njóti í gegnum KEA kortið. Áætluð afkoma af þeim viðskiptakjörum sé 400-450 milljónir króna umfram reikningshaldslega afkomu á síðasta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×