Innlent

Framúrskarandi nemendur hlutu 10 milljónir í styrki

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá athöfninni í Háskóla Íslands í dag. 28 nemendur hlutu styrk fyrir framúrskarandi árangur til stúdentsprófs.
Frá athöfninni í Háskóla Íslands í dag. 28 nemendur hlutu styrk fyrir framúrskarandi árangur til stúdentsprófs. Háskóli Íslands
Tuttugu og átta nemendur úr sextán framhaldsskólum víðs vegar af landinu hlutu styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands í ár. Styrkjum var úthlutað úr sjóðnum í tíunda sinn við hátíðlega athöfn á Háskólatorgi í dag.

Í fréttatilkynningu frá Háskóla Íslands segir að styrkþegarnir, 10 karlar og 18 konur, eigi það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs. Þau munu öll hefja grunnnám við skólann í haust og innan hópsins er stefnt á nám á öllum fimm fræðasviðum skólans. Hver nemandi hlaut styrk sem nemur 375 þúsund krónum en samanlögð styrkupphæð er því rúmar 10 milljónir króna.

Við mat á styrkþegum er horft til árangurs á stúdentsprófi, virkni í félagsstörfum í framhaldsskóla og árangurs í greinum á borð við listir og íþróttir. Þá er einnig leitast við að styrkja nýnema sem sýnt hafa fram á sérstakar framfarir í námi eða góðan námsárangur þrátt fyrir erfiðar aðstæður. 

Styrkhafarnir í ár eru: Anna Chukwunonso Eze, Arnar Huginn Ingason, Atli Fannar Franklín, Erla Marý Sigurpálsdóttir, Erla Sigríður Sigurðardóttir, Garðar Sigurðarson, Gísli Björn Helgason, Guðlaug Agnes Kristjánsdóttir, Guðrún Höskuldsdóttir, Guðrún Ólafsdóttir, Hákon Örn Grímsson,  Helga Margrét Höskuldsdóttir, Inga Guðrún Eiríksdóttir, Ísak Valsson, Jakob van Oosterhout, Karen Sif Jakobsdóttir, Kinga Sofia Demény, Liina Björg Laas Sigurðardóttir, Magnea Haraldsdóttir, Ragnheiður Silja Kristjánsdóttir, Sigurður Smári Davíðsson, Sindri Magnússon, Snæþór Aðalsteinsson, Sólveig Hrönn Hilmarsdóttir, Sunna Þórarinsdóttir, Tanja Rasmussen, Thelma Dís Ágústsdóttir og Þóranna Hlíf Gilbertsdóttir.

Styrkirnir í ár eru veittir með stuðningi Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands og Happdrættis Háskóla Íslands. Stjórn Afreks- og hvatningarsjóðs stúdenta Háskóla Íslands skipa Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar sem er formaður, Börkur Hansen, prófessor við Uppeldis- og menntunarfræðideild, og Ólafur Pétur Pálsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild.

Fyrstu styrkirnir voru veittir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands árið 2008 en frá þeim tíma hafa hátt í 230 nemendur tekið við styrkjum úr sjóðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×