Innlent

Framtak starfsmanna Icelandair vekur heimsathygli

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Myndatakan var ekki í samræmi við starfsreglur Icelandair.
Myndatakan var ekki í samræmi við starfsreglur Icelandair.
Starfsmenn Icelandair hafa vakið heimsathygli með því að skila manni iPad sem hann gleymdi um borð í vél flugfélagsins. Ekki nóg með það; starfsmennirnir tóku skemmtilegar myndir af sér á spjaldtölvuna.

Miðillinn DailyMail hefur nú fjallað um málið. Frásögn eiganda iPadsins hefur vakið mikla athygli í vefsamfélaginu Reddit, þar sem eigandi tölvunnar sagði frá málinu. Í frétt DailyMail segir til að mynda að frásögn eigandans á Reddit hafi verið lesin í tæplega eina og hálfa milljón skipta. Í frásögn sinni á Reddit lýsir hann yfir mikilli ánægju með Icelandair: „Þetta eykur álit mitt á fyrirtækinu,“ skrifaði hann þar.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair segir að myndataka starfsmannanna hafi ekki verið í samræmi við vinnureglur en segir það hafa verið til sóma að spjaldtölvunni hafi verið skilað.

Hruda hefur komist í samband við tvo af starfsmönnunum sem tóku þessar fyndnu myndir og þakkað þeim fyrir.
Ótrúlega sáttur með þjónustuna

Eigandi spjaldtölvunnar heitir Stepan Hruda. Hann er ótrúlega sáttur með þjónustuna; að starfsfólk fyrirtækisins hafi passað svona vel upp á spjaldtölvuna hans. Í samtali við Vísi segir Hruda að hann hafi meira að segja komist í samband við tvo af starfsmönnunum sem tóku myndir af sér á spjaldtölvuna. „Ég gat því þakkað þeim sérstaklega fyrir í gegnum Reddit og Twitter,“ segir hann sáttur.

Hruda gleymdi spjaldtölvunni um borð í flugvél Icelandair fyrir þremur vikum, þegar hann flaug til Íslands frá New York í Bandaríkjunum. „Ég fattaði ekki að ég hafði gleymt tölvunni í flugvélinni fyrr en tveimur dögum seinna, þegar ég sat í heitum potti í norðurhluta Íslands,“ segir hann við Vísi. Hann segist hafa verið búinn að sætta sig við að fá ekki tölvuna aftur. Hann hafði samband við Icelandair í gegnum Twitter. „Starfsfólkið kom mér svo í samband við lögregluna og þá kom í ljós að tölvan var hjá henni. Ég gat því sótt tölvuna þegar ég fór aftur til Keflavíkur eftir ferðalag um Ísland,“ segir hann en frá Íslandi hélt hann til Spánar.

„Ég sá svo ekki myndirnar fyrr en ég kom aftur heim til New York. Ég ákvað að stofna þráð um þetta á Reddit og allt varð vitlaust,“ bætir hann við. 

Spjaldtölva Hruda var læst, en samt sem áður var hægt að taka myndir með henni.

Myndirnar hafa vakið mikla athygli.
Ekki í samræmi við vinnureglur

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair segir að myndatakan hafi ekki verið í samræmi við vinnureglur. „Þetta mál sýnir öðru fremur fjölmiðlaumhverfið sem við búum við. Starfsfólkið kom spjaldtölvunni náttúrlega til skila með sóma og það er gaman að viðskiptavinurinn var ánægður. En myndatakan er ekki í samræmi við vinnureglur,“ segir hann.

Í þræðinum sem Hruda stofnaði á Reddit sagði annar notandi, í athugasemdakerfinu, að starfsfólkið gæti lent í vandræðum vegna myndatökunnar.

Þegar blaðamaður spurði Guðjón hvort að sú hefði verið raunin svaraði hann:

„Nei, nei, en það var farið aðeins yfir vinnureglurnar.“

Ljóst er að málið hefur vakið mikla athygli og er góð auglýsing fyrir Icelandair. Til að mynda var myndband þar sem farið er yfir öryggismál um borð í vélum fyrirtækisins birt í frétt DailyMail. Það myndband má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×