Innlent

Framsókn sýndi frá ræðu Sigmundar Davíðs en klippti á Sigurð Inga

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá flokksþinginu í dag.
Frá flokksþinginu í dag. vísir/ernir
Framsóknarflokkurinn var með beina útsendingu á vefnum frá flokksþinginu sem hófst í dag. Útsendingin varði þó ekki lengi þó að fundurinn sjálfur standi í tvo daga.

Það var nefnilega aðeins sýnt beint frá ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns flokksins en þegar hann hafði lokið máli sínu lauk útsendingunni líka. Á eftir Sigmundi Davíð kom forsætisráðherra og varaformaður flokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, í pontu en þá hafði verið lokað fyrir beinu útsendinguna. Í pósti til fjölmiðla sem Jóhannes Þór Skúlason aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs kom fram að streymt yrði frá ræðu formannsins og ráðherra Framsóknarflokksins. 

Mikil spenna er innan Framsóknarflokksins vegna komandi formannskjörs á morgun en þar eru þeir tveir í framboði, Sigmundur Davíð og Sigurður Ingi. Nokkur styr stóð um dagskrá flokksþingsins í vikunni en í drögum þess var ekki gert ráð fyrir ræðu forsætisráðherra. Dagskránni var síðan breytt í gær og þar settar inn ræður ráðherra flokksins, þar með talin ræða Sigurðar Inga.

Í ræðu sinni í dag skaut Sigurður Ingi nokkuð fast á Sigmund Davíð þó að hann nefndi formanninn aldrei á nafn. Hann sagði það til dæmis ekki í anda Framsóknarflokksins að formaðurinn ákvæði það einhliða að forsætisráðherra fengi aðeins 15 mínútur til að fara yfir störf ríkisstjórnarinnar síðustu sex mánuði.

Vísir streymdi frá fundinum hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×