Innlent

Framsókn leggst gegn nýjum spítala

Teikningar af spítalanum.
Teikningar af spítalanum.
Stjórn Framsóknarfélags Reykjavíkur telur byggingu nýs spítala við Hringbraut örlagarík mistök samkvæmt ályktun sem stjórnin sendi á alla fjölmiðla í dag. Þar skorar stjórn félagsins á stjórnvöld og Alþingi að stöðva nú þegar það „stórslys sem er í uppsiglingu í Þingholtunum". Stjórnin skorar jafnframt á formann og þingflokk Framsóknarflokksins að beita sér að fullu afli gegn málinu.

Ástæðan fyrir því að félagið leggst gegn byggingu spítalans er meðal annars sú að „Skipulagslega gengur verkefnið gegn allri skynsemi þar sem tröllvaxin húsaþyrping á að rísa í lágstemmdri byggð Þingholta. Umferðahnútar verða víða um borgina vegna bílaumferðar sem öll stefnir á sama punktinn í 101. Kostnaður verkefnisins verður gífurlegur og munu heildarútgjöldin tvöfaldast á nokkrum áratugum vegna þess að fjármögnun er ýtt yfir á verktakana".

Hægt er að lesa alla ályktunina hér fyrir neðan.

Örlagarík mistök við Hringbraut

Í framhaldi af fjölsóttum fundi Framsóknarfélags Reykjavíkur síðastliðinn laugardag þar sem „spítalamálið" bar á góma skorar stjórn félagsins á stjórnvöld og Alþingi að stöðva nú þegar það stórslys sem er í uppsiglingu í Þingholtunum. Stjórnin skorar á formann og þingflokk Framsóknarflokksins að beita sér að fullu afli gegn málinu.

Skipulagslega gengur verkefnið gegn allri skynsemi þar sem tröllvaxin húsaþyrping á að rísa í lágstemmdri byggð Þingholta. Umferðahnútar verða víða um borgina vegna bílaumferðar sem öll stefnir á sama punktinn í 101. Kostnaður verkefnisins verður gífurlegur og munu heildarútgjöldin tvöfaldast á nokkrum áratugum vegna þess að fjármögnun er ýtt yfir á verktakana. Ríkissjóður þarf ekki á frekari risalántökum að halda til að hækka skatta komandi kynslóða. Verkefnið er of stórt fyrir íslenska verktaka og mun því að líkindum vinnast fyrst og fremst af erlendum aðilum.

Undirbúningur verkefnisins virðist lifa sínu eigin lífi í kerfinu þó hann byggi á lagasetningu frá Alþingi sem brýnt er að breyta án tafar.

Framsóknarfélag Reykjavíkur telur nauðsynlegt að því fjármagni sem varið er til heilbrigðismála sé fyrst varið til að bæta kjör starfsfólks, minnka álag og auka þjónustu við sjúklinga, að því loknu til tækjakaupa og til skynsamlegrar uppbyggingar húsnæðis á svæðinu. Þá er brýnt að sjúkrahúsþjónusta landsbyggðarinnar skerðist ekki vegna þeirrar miðstýrðu hugsunar sem þetta risaverkefni óneitanlega ber með sér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×