Innlent

Framsókn fer ekki á taugum yfir skoðanakönnunum

Heimir Már Pétursson skrifar
Fylgi Framsóknarflokksins hefur hrapað frá síðustu kosningum samkvæmt könnun Fréttablaðsins sem birt var í dag. Aðrir flokkar bæta allir við sig fylgi, Samfylkingin sínu mest.

Það er ljóst að ef tölurnar í skoðanakönnun Fréttablaðsins yrði niðurstaða kosninga væri ríkisstjórnin fallin, þyrfti a.m.k. sex þingmenn til að mynda meirihluta. En það er aðallega Framsóknarflokkurinn sem er að tapa fylgi.

Samkvæmt könnun Fréttablaðsins sem gerð var á þriðjudag og miðvikudag er fylgi Framsóknarflokksins komið niður í 8,7 prósent og hefur flokkurinn því tapað um 15 prósentustigum frá kosningum 2013. Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig og er stærsti flokkurinn á þingi með 30,3 prósent. Samfylkingin bætir við sig mestu fylgi eða rúmum 10 prósentustigum frá kosningum og aðrir flokkar sækja einnig í sig veðrið.

Nú styttist í að útreikningar á leiðréttingu húsnæðislána fara að birtast, heldur þú að landið fari þá að rísa á nýjan leik hjá Framsóknarflokknum?

„Við höfum aldrei verið að fara á taugum yfir einhverjum skoðanakönnunum. Við vinnum okkar verk kjörtímabil fyrir kjörtímabil og uppskerum svo í kosningum. Þannig vinnur Framsóknarflokkurinn,“ segir Vigdís Hauksdóttir þingmaður flokksins og formaður fjárlaganefndar.

Allir flokkar á þingi nema Framsóknarflokkurinn myndu bæta við sig þingmönnum, en Framsókn tapar 13 þingmönnum á sama tíma og samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn bætir við sig einum.

Samfylkingin tekur hins vegar stökk og myndi bæta við sig sex þingmönnum ef kosið yrði nú. Árni Páll Árnason formaður flokksins segir málflutning flokksins vera að skila sér.

„Um jöfn tækifæri, um athafnafrelsi og um góða opinbera þjónustu hafa auðvitað fengið betri hljómgrunn síðustu vikur vegna verka ríkisstjórnarinnar. En það er ekki eins og Samfylkingin sé að segja eitthvað nýtt. Við höfum alltaf sagt að það þurfi, til þess að okkur farnist vel, þetta þrennt að fara saman; góð opinber þjónusta, athafnafrelsi og jöfn tækifæri fólks til að afla sér mennta og komast áfram í lífinu,“ segir Árni Páll Árnason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×