Innlent

Framlengja gæsluvarðhald í þriðja sinn til að vernda konu fyrir ofbeldismanni

Birgir Olgeirsson skrifar
Hæstiréttur Íslands
Hæstiréttur Íslands Vísir/GVA
Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem er ákærður fyrir ítrekuð brot gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni. Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði manninn í áframhaldandi gæsluvarðhald 2. október síðastliðinn en hafði í tvígang áður úrskurðað manninn í áframhaldandi gæsluvarðhald. Fyrst var hann úrskurður í gæsluvarðhald 10. júlí síðastliðinn.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur kemur meðal annars fram að maðurinn sé sakaður um að hafa otað töng að fyrrverandi sambýliskonunni og hótað að klippa fingurna af henni 8. maí síðastliðinn. Þá er hann sakaður um að hafa ráðist að konunni með ofbeldi og líkamsmeiðingum 5. og 11. júní síðastliðinn, þannig að áverkar hlutust að konunni.

Þá er maðurinn sagður undir rökstuddum grun um líkamsárás, hótanir og brot á nálgunarbanni gegn sömu konu 19. júní, 22. júní og 9. júlí.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur kom fram að maðurinn neyti örvandi fíkniefna sem veldur hömluleysi í hegðun sem bitnar á konunni. Því var fallist á það mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að ætla megi að maðurinn muni halda áfram brotum með máli hans er ólokið sem og að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt til að verja fyrrum sambýliskonu hans fyrir árásum af hans hálfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×