Erlent

Framlengja frest til að ná samkomulagi um kjarnorkuáætlun Írana

Atli Ísleifsson skrifar
Viðræðum verður fram haldið í desember.
Viðræðum verður fram haldið í desember. Vísir/AFP
Frestur til að ná samkomulagi um kjarnorkuáætlun Írana hefur verið framlengdur til loka júnímánaðar á næsta ári eftir að háttsettum embættismönnum mistókst að ná heildarsamkomulagi í Vínarborg.

Philip Hammond, utanríkisráðherra Bretlands, segir að árangur hafi náðst en ekki hafi verið mögulegt að ná samkomulagi innan fyrirfram setts tímaramma.

Stórveldi á borð við Bandaríkin, Rússland, Kína og Þýskaland vilja að Íranir hætti kjarnorkutilraunum sínum alfarið og að í staðinn verði viðskiptabanni sem sett var á landið aflétt.

Íranir halda hinsvegar fast í þá afstöðu sína að kjarnorkuáætlunin sé aðeins í friðsömum tilgangi og að ekki standi til að framleiða kjarnavopn.

Í frétt BBC segir að viðræðum verði fram haldið í desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×