Skoðun

Framleiðni

Guðný Benediktsdóttir skrifar
Okkur er sagt að í alþjóðlegum samanburði komi Ísland illa út hvað framleiðni vinnuafls varðar. Lítil framleiðni þýðir að við erum óhagkvæmari, við þurfum að kosta meiru til, til að framleiða sömu vöru/þjónustu en samkeppnislönd okkar. Þetta er því stórt mál fyrir okkur sem þjóð. Ef framleiðni eykst hjá fyrirtæki stendur það sig betur í samkeppninni og meiri líkur eru á því að það geti greitt hærri laun. Það er því sameiginlegur hagur atvinnuveitanda og stafsmanns að auka framleiðni. En hvað þarf til?

Stjórnendur fyrirtækja sem leggja áherslu á góðan rekstur eru stöðugt að huga að aukinni framleiðni og stuðla að því að ferlar fyrirtækisins þróist í átt að meiri skilvirkni. Þeir vita að þetta kostar bæði tíma og peninga en er sparnaður á endanum. Þeir innleiða nýja hugsun í rekstri og sjá til þess að árangri sé viðhaldið. Þeir hafa úthald og eru meðvitaðir um að stöðugar umbætur skila árangri en krefjast stöðugrar vinnu.

Til að innleiða hugsun og verklag stöðugra umbóta þurfa stjórnendur að byrja á sjálfum sér. Þeir þurfa að leiða vinnuna til að aðrir fylgi með. Þeir þurfa að þekkja ferlana, sjá til þess að þeir séu skráðir og verklagsreglur og vinnulýsingar séu aðgengilegar fyrir starfsmenn.

Stöðugar umbætur kalla á breytingar sem geta reynst mörgum erfiðar. Farsælast til árangurs er að vinna að breyttu verklagi með því fólki sem sinnir verkefninu, það þekkir málið best. Þátttaka starfsfólks eykur svo ábyrgðartilfinningu og metnað sem leiðir til meiri starfsánægju.

Til að auka framleiðni fyrirtækis er mikilvægt að allir starfsmenn séu með á árunum og rói í sömu átt. Starfsmenn vilja upplifa sig sem þátttakendur og hluta af góðu teymi. Gott upplýsingastreymi er því mikilvægt svo og skýr stefna, allir þurfa að vita hvert er verið að fara og af hverju.

Mælingar á lykilþáttum rekstrar og kynning á niðurstöðu til starfsmanna hefur reynst góð aðferð til að virkja starfsmenn til þátttöku svo og að virkja eðlislægan áhuga starfsmannsins með því að velja réttan aðila í rétt starf.

Til að auka framleiðni fyrirtækja þarf að velja til starfa stjórnendur og leiðtoga sem geta virkjað fólk til góðra verka og leitt teymi til árangurs.




Skoðun

Sjá meira


×