Innlent

Framkvæmdir hefjast við nýja stúdentagarða

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Frá vinstri: Ragna Sigurðardóttir formaður SHÍ, Guðrún Björnsdóttir framkvæmdastjóri FS, Eiríkur Hilmarsson framkvæmdastjóri Vísindagarða HÍ, Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík.
Frá vinstri: Ragna Sigurðardóttir formaður SHÍ, Guðrún Björnsdóttir framkvæmdastjóri FS, Eiríkur Hilmarsson framkvæmdastjóri Vísindagarða HÍ, Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík. Félagsstofnun stúdenta
Framkvæmdir hófust í dag við nýja stúdentagarða Félagsstofnunar stúdenta. Gert er ráð fyrir því að framkvæmdum verði lokið í lok árs 2019. Ragna Sigurðardóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands var á meðal þeirra sem tóku fyrstu skóflustunguna.

Stúdentagarðarnir verða staðsettir á lóð Vísindagarða Háskóla Íslands við Sæmundargötu. Í tilkynningu frá Félagsstofnun stúdenta segir að þar muni rísa um 14.700 fermetra hús á fimm hæðum, með um 220 leigueiningum. Herbergin verða með baðherbergi og sameiginlegri aðstöðu, einstaklingsíbúðum og paríbúðum.

Langur biðlisti

Um eitt þúsund manns eru á biðlista eftir dvöl á stúdentagörðunum. Biðlistinn hefur lengst síðustu ár þrátt fyrir uppbyggingu á svæðinu. Sem stendur eru 1.200 leigueiningar á stúdentagörðunum. Þar búa um tvö þúsund manns.

Félagsstofnun stúdenta stefnir að því að halda uppbyggingu Stúdentagarða áfram þar til allir stúdentar sem vilja búa á görðunum eiga þess kost.

Nýju stúdentagarðarnir verða fjármagnaðir að 90% hluta með lánum frá Íbúðalánasjóði en Félagsstofnun Stúdenta mun leggja til það sem upp á vantar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×