Innlent

Framkvæmdir ganga vel í Hvalfjarðargöngunum

Hjörtur Hjartarson skrifar
Malbikunarframkvæmdir í Hvalfjarðargöngunum ganga vel og ættu að vera lokið á tilsettum tíma. Á meðan þurfa ferðalangar að aka um Hvalfjörðinn. Hvalfjarðargöngunum var lokað klukkan átta í gærkvöld og verða þau opnuð fyrir umferð klukkan sex á mánudagsmorguninn.

Göngin voru formlega tekin í notkun þann 11.júlí, 1998. Þá var reiknað með að endurnýja þyrfti malbikið eftir 5-7 ár en það er ekki fyrr en nú, rúmum 16 árum síðar sem það er gert.

„Það var innflutt sérstakt kvars frá Noregi sem er miklu sterkara efni en við höfum yfir að ráða hér,“ segir Marinó Tryggvason, öryggisfulltrúi Spalar.

„Og er verið að leggja samskonar efni núna?“

„Já, það er sérstakt efni líka, kvarsefni.“

„Þið eruð að malbika aðra akreinina núna og hin verður tekin á næsta ári?“

„Já, það er meiningin.“

Reiknað er með að verkið kosti á bilinu 70 til 80 milljónir króna en mörg önnur hefðbundin viðhaldsverk eru unnin samhliða malbikuninni.

En það er verið að gera fleira í þessari lotu en að malbika inni í göngunum. Það er verið að dytta að hinu og þessu og koma með viðbætur. Til að mynda er verið að koma fyrir veghliðum við gangnaskýlin sem ætlað er að stjórna umferðarhraðanum betur.

Um 11.500 ökutæki fara um Hvalfjarðargöngin um hverja helgi í október en þurfa nú að fara um Hvalfjörðinn. Það lagðist misvel í þá sem fréttastofa ræddi við í dag.

Valgarður Gíslason, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, og Egill Aðalsteinsson, myndatökumaður Stöðvar 2, litu við í göngunum í dag og tóku þessar myndir:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×