Innlent

Framkvæmdin var mjög jákvæð

Brjánn Jónasson skrifar
Siv Friðleifsdóttir
Siv Friðleifsdóttir
„Ég tel að þetta hafi verið rétt niðurstaða,“ segir Siv Friðleifsdóttir um þá ákvörðun sína sem umhverfisráðherra árið 2001 að ógilda synjun Skipulagsstofnunar sem lagðist gegn Kárahnjúkavirkjun.

„Í heildina má segja að framkvæmdin hafi verið mjög jákvæð, að mínu mati. Það urðu auðvitað einhver neikvæð umhverfisáhrif, eins og er af öllum framkvæmdum. Svo er hægt að deila um hvað þau eru mikil. Svo hafa orðið gríðarlega jákvæð félagsleg áhrif á Austurlandi,“ segir Siv. Um 750 verðmæt störf hafi orðið til í álveri á Reyðarfirði og í kringum þá starfsemi.

„Þessi framkvæmd var réttmæt á sínum tíma. Ég tel að ef hún hefði komið inn á borð í dag hefði niðurstaðan orðið sú sama,“ segir Siv.

Hún rifjar upp að ákveðið hafi verið að ógilda synjun Skipulagsstofnunar en setja 20 skilyrði til að minnka umhverfisáhrif á ýmsum sviðum. Eitt af þeim skilyrðum hafi lotið að mótvægisaðgerðum við Lagarfljótsvirkjun vegna aukins rennslis og aurs í Lagarfljót.

„Það vissu allir að það yrðu neikvæð áhrif á rennslið, að það myndi aukast, en við töldum þau ekki það mikil að þau kollvörpuðu okkar niðurstöðu,“ segir Siv.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×