Innlent

Framkvæmdastjóri SA furðar sig á áhyggjum verkalýðsforingja af arðgreiðslum

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri SA segist furða sig á yfirlýsingum verkalýðsforystunnar um arðgreiðslur til einstaklinga. Fyrirtækin hafi sýnt litla arðsemi, allt frá hruni og það séu hagsmunir alls samfélagins að þau rétti úr kútnum.

Hann segist ekki deila áhyggjum formanns VR af því að rauðu strikin verði virk og samningar losni í febrúar. Undanfarna tólf mánuði hafi kaupmáttur aukist um tólf og hálft prósent og þó sé aðeins hluti af umsömdum launahækkunum kominn til framkvæmda. „Ég held að það sé ekki nokkur vafi á því að þegar komið er fram í febrúar 2016 sé um myndarlega kaupmáttaraukningu að ræða,“ segir Þorsteinn.

Ólafia B. Rafnsdóttir formaður VR sagðist í gær hafa áhyggjur af því að margt bendi til þess að markmið með kjarasamningum um aukinn kaupmátt náist ekki og rauðu strikin verði virk í febrúar á næsta ári þegar samningar verði endurskoðaðir með tilliti til þess hvort aðrir tekjuhópar hafi fengið meiri kauphækkanir eða verðlag farið í böndunum. Eigendur fyrirtækja séu að láta aukinn kostnað út í verðlag en halda öllu sínu miðað við fréttir úr álagningarskrám um arðgreiðslur til einstaklinga.

Kvarta þegar sjást batamerki
Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ sagði í gær að greinilegt væri miðað við arðgreiðslur til einstaklinga sem hafa aukist um 54 prósent að verkalýðsforystan hafi haft rétt fyrir sér um að það væri innistæða fyrir meiri launahækkunum en atvinnurekendur, ríkisstjórnin og seðlabankinn hafi talið ráðlegar.
 
Þorsteinn segir að atvinnulífið hafi verið með mjög litla arðsemi frá hruni. Það skjóti skökku við að strax og einhver batamerki sjáist byrji verkalýðshreyfingin að kvarta. „Auknar arðgreiðslur úr atvinnulífinu þýða að það er kraftur í því og það er orðið heilbrigðara en það var,“ segir Þorsteinn og bætir við að heilbrigt og kröftugt atvinnulíf þýði auknar fjárfestingar og fleiri störf.

Engin sérstök ástæða fyrir launaskriði
200 starfsmenn fjármálafyrirtækja hækkuðu um 200 þús. kr. á mánuði, en bankamenn eru hástökkvarar samkvæmt tekjublaði frjálsrar verslunar. Samningar við bankamenn eru lausir en þeir munu væntanlega fara fram á aðrir starfsmenn fái líka kjaraabætur. Þorsteinn segist ekki telja að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af hagkerfinu í heild þótt það sé launaskrið í bönkunum. Launahækkanir annarra stjórnenda hafi verið litlar milli ára og þeir því gengið á undan með góðu fordæmi. Hann segir að það sé þó mikilvægt að þróunin sé á sama veg. Það sé engin sérstök ástæða fyrir því að það sé eitthvað sérstakt launaskrið hjá bankamönnum umfram aðra.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×