Enski boltinn

Framherjaleit Chelsea tekur óvænta beygju

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Crouch í leik með Stoke gegn Huddersfield.
Crouch í leik með Stoke gegn Huddersfield. Vísir / Getty
Framherjaleit Chelsea hefur tekið óvænta beygju, en Telegraph hefur greint frá því að tveggja metra maðurinn Peter Crouch sé á óskalista liðsins.

Eftir góða byrjun hefur Alvaro Morata, sjö milljarða króna framherinn, sem kom frá Real Madrid fyrir tímabilið, gengið illa að finna netmöskvana síðustu vikur. Þá hefur Michy Bashuayi, sem komið hefur af bekknum, ekki heillað Conte. Hefur Conte því gert það að forgangsatriði að fá annan framherja til liðs við félagið í janúar félagsskiptaglugganum.

Ef marka má fregnir enska fjölmiðla er greinilegt að Conte vill stóran og stæðilegan enskan framherja sem hefur sannað sig í ensku úrvalsdeildinni, en Chelsea á að hafa gert West Ham tilboð í Andy Carroll, sem einnig er í kringum metrana tvo, fyrr í vikunni.

Óvíst er þó hvort að Stoke sé tilbúið að losa sig við Crouch, sem er með samning út árið, en hann hefur verið í byrjunarliði liðsins síðan að Mark Hughes var rekinn fyrr í mánuðinum. Ef að félagsskiptunum kemur þykir líklegast að um lán verði að ræða út tímabilið.

Crouch, sem verður 37 ára síðar í þessum mánuði, hefur aðeins skorað fjögur mörk fyrir Stoke á þessu tímabili. Hann á 42 landsleiki að baki fyrir England, en síðasti landsleikur hans var fyrir átta árum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×