Innlent

Framhaldsskólakennarar skrifa undir nýjan samning

Atli Ísleifsson skrifar
Samninganefndir FF og FS sem skrifuðu undir samninginn í morgun.
Samninganefndir FF og FS sem skrifuðu undir samninginn í morgun. Mynd/Kennarasambandið
Fulltrúar Kennarasambands Íslands og samninganefndar ríkisins skrifuðu undir nýjan kjarasamning í morgun vegna ríkisrekinna framhaldsskóla.

Félagsmenn Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í ríkisreknum framhaldsskólum felldu nýverið samkomulag frá 4. febrúar um nýtt vinnumat og þar með voru samningar þeirra lausir.

Í frétt á vef Kennarasambandins segir að könnun meðal félagsmanna hafi leitt í ljós að 76 prósent þeirra voru fylgjandi því að gengið yrði á ný til samninga á grundvelli vinnumatsins. „Í kjölfarið settust samninganefndirnar niður og byggir samningurinn sem undirritaður var í dag á hugmyndafræði þess,“ segir í fréttinni.

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir nýtt samkomulag í helstu atriðum líkt hinu fyrra en nú sé búið að jafna mun á milli greina, styrkja ramma utan um ráðningarhlutföll og tryggja það að sýnidæmi vinnumats gildi sem lágmarksviðmið.

Nýtt samkomulag verður sent félagsmönnum Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum síðar í dag en formleg kynning á því verður strax eftir páska. Í framhaldi verða greidd um samkomulagið atkvæði og á þeirri atkvæðagreiðslu að vera lokið eigi síðar en 15. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×