Innlent

Framhaldsskólakennarar: Stóra málið er tímaleiðréttingin fyrir verknámsgreinarnar

Atli Ísleifsson skrifar
Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir samningstörnina hafa verið mun lengri en fyrirfram var búist við.
Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir samningstörnina hafa verið mun lengri en fyrirfram var búist við. Vísir/Stefán
„Ég er mjög fegin. Þetta er búin að vera törn og mun lengri en við gerðum ráð fyrir í byrjun. Við teljum okkur vera með samning sem félagsmenn okkar geta fellt sig við,“ segir Guðríður Arnardóttir formaður Félags framhaldsskólakennara, í samtali við Vísi.

Samninganefndir Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum skrifuðu í morgun undir nýjan kjarasamning við samninganefnd ríkisins.

Guðríður segir stóra málið í samningnum vera að það sé ákveðin jöfnun á milli verknáms og bóknáms. „Við erum að setja lágmarkstímatalningu fyrir þriggja eininga áfanga samkvæmt viðmiðunarfjölda í hópastarfi.

Það þýðir að hópar sem eru skilgreindir litlir í viðmiðum, líkt og verknámshópar þar sem er tólf nemenda viðmið, þá er það þannig að þó að vinnumatið telji til færri tíma heldur en meðaltalið sem við höfum sett okkur, 174,5 tímar, þá mun sú talning ekki fara undir það miðað við viðmiðunarfjölda. Nemendur þurfa að vera færri en það til að þetta fari niður fyrir þetta í tímum talið.“

Guðríður segir samninga sem þessa mjög tæknilega og telur því best að taka dæmi. „Gefum okkur tólf nemenda verknámshóp, hann reiknast nú í vinnumati sem 160 tímar. Af því að við erum búin að setja þetta lágmark þá myndi koma til leiðrétting, að þessir 160 tímar yrðu 174,5 tímar sem er meðaltalstala sem við erum búin að setja okkur. Ef nemendur verða ellefu þá lækkar þessi tala hlutfallslega. Ef þeir verða þrettán þá hækkar hún. Þarna er því komin leiðrétting, sem mun vega þyngst fyrir verknámskennara.“

Guðríður segir kennara jafnframt vera búna að fá yfirlýsingu að breytilegt vinnumagn geti ekki haft áhrif á ráðningarhlutfall eða starfshlutfall fólks. „Það er því búið að tryggja grundvöllinn og skýra atriði sem mörgum þótti óljós í fyrri samningi. En þetta er stærsta málið, þessi tímaleiðrétting fyrir verknámsgreinarnar.“

Hún segir að félagið muni skila niðurstöðum kosningar félagsmanna til viðsemjenda fyrir 15. apríl næstkomandi.


Tengdar fréttir

Nýr samningur fer beina leið í kynningu

Framhaldsskólakennarar landa nýjum kjarasamningi við ríkið eftir að hafa fellt samning í febrúar. Stefnt er að undirskrift fyrir hádegi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×