Skoðun

Framfarir hjá Kauphöllinni

Helgi Sigurðsson skrifar
Stjórnendur Kauphallarinnar eru öllu fljótari að svara grein minni frá 25. ágúst sl. um rangfærslur sem Kauphallarmenn birtu deginum áður og var síðbúið svar við grein sem ég skrifaði í byrjun júlí.

Í upphaflegri grein minni fór ég yfir þá staðreynd að Kauphöllin hefði talið aðkomu bankanna mikilvæga forsendu fyrir þróun íslensks hlutabréfamarkaðar. Þessu andmæltu Kauphallarmenn og sögðu engan starfsmann Kauphallar hafa haldið þessu fram. Í svarbréfi sínu nú viðurkennir Kauphöllin raunar að aðkoma bankanna að hlutabréfamarkaðnum sé mikilvæg hér á landi líkt og erlendis. Allt öðru máli gegni um viðskipti þeirra með eigin bréf.

Látum nú vera þó að ég hafi í upphaflegri grein vísað til þróunar hlutabréfamarkaðarins almennt, og gera megi þær kröfur til Kauphallarinnar að áður en staðhæfingum er mótmælt sem röngum, að farið sé rétt með innihald þeirra. Þetta á ekki síst við þegar Kauphöllin tekur sér margar vikur til að svara stuttri grein. Það er þó framför að Kauphöllin skuli vera sammála mér um þetta mikilvæga atriði.

Viðskipti með eigin bréf

Kauphöllin heldur því hins vegar fram að þetta eigi ekki við um eigin bréf. Það er nokkuð athyglisvert vegna þess að í bréfi Kauphallarinnar til FME sem var skrifað þremur árum eftir að þessu viðskiptum bankanna með eigin bréf lauk segir m.a.:

„Þekkt var að bankarnir voru hver um sig með hæsta hlutdeild í viðskiptum með eigin bréf“

„Ljóst er að væntur ábati af slíkum kaupum gat verið umtalsverður“

„Því var ekki óeðlilegt að sjá kauptækifæri í stöðunni og hljóta eigin viðskipti Landsbankans þar að koma sterklega til greina, enda hafa starfsmenn oftar en ekki meiri trú á eigin fyrirtæki en aðrir“

Ekki verður séð af þessum sjónarmiðum Kauphallarinnar að allt öðru máli gegni um viðskipti bankanna með eigin bréf, „enda hafa starfsmenn oftar en ekki meiri trú á eigin fyrirtæki en aðrir“ svo vitnað sé til orða Kauphallarinnar sjálfrar.

Viðskiptavakt

Dómur Hæstaréttar vegna viðskipta Landsbankans með eigin bréf, byggir á því að eftir breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti 2005 verði með gagnályktun að líta svo á að það „sé óheimilt að stunda viðskipti með eigin hluti […] nema um sé að ræða viðskipti í endurkaupaáætlun eða við verðjöfnun fjármálagerninga“. Í dóminum var jafnframt vísað til þess að með gagnályktun væri fjármálafyrirtæki óheimilt að takast á hendur viðskiptavakt með eigin bréf.

Kauphöllinni var fullkunnugt um að viðskipti bankanna með eigin bréf byggðust hvorki á viðskiptavakt né endurkaupaáætlun. Gagnrýni mín byggir á því að áður en Kauphöllin gerir kröfur til þess að aðrir líti í eigin barm, væri henni hollt að velta því fyrir sér hvort hún sem lögbundinn eftirlitsaðili á fjármálamarkaði hefði átt að vekja athygli markaðarins á því (og eftir atvikum stöðva viðskipti), að eftir lagabreytinguna 2005 yrðu viðskiptin að byggjast á þessum forsendum. Það gerði hún ekki. Ég er áfram þeirrar skoðunar að frammistaða Kauphallarinnar að þessu leyti sé talsvert lakari en umbjóðanda míns.

Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×