Erlent

Framdi sjálfsmorð eftir að hafa verið sendur úr landi þrisvar sinnum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ríkisstjórn Bandaríkjanna kynnti í gær hertari áherslur í innflytjendamálum sem þegar hafa haft áhrif.
Ríkisstjórn Bandaríkjanna kynnti í gær hertari áherslur í innflytjendamálum sem þegar hafa haft áhrif. Vísir/Getty
Mexíkóskur maður framdi sjálfsmorð í dag, einungis hálftíma eftir að hann var sendur úr landi frá Bandaríkjunum. BBC greinir frá.

Um er að ræða 45 ára gamlan mann að nafni Guadalupe Olivas Valencia. Hann hoppaði fram af brú við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna, nálægt San Diego og Tijuana, eftir að hafa verið sendur úr landi frá Bandaríkjunum, í þriðja skiptið.

Var það gert í kjölfar strangara viðmiða á vegum bandarískra stjórnvalda, sem gerðu þeim það auðveldara að senda úr landi fólk, sem talið er dvelja þar ólöglega.

Sjá einnig: Setja fram ströng viðmið sem auðvelda brottvísun ólöglegra innflytjenda

Vitni segja Olivas hafa öskrað á viðstadda að hann hafi ekki viljað snúa aftur til Mexíkó og virtist maðurinn vera í annarlegu ástandi. Olivas var upprunalega frá Sinaloa héraðinu í Mexíkó, en þar er ein hæsta tíðni ofbeldis í landinu.

Luis Videgaray, utanríkisráðherra Mexíkó og Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, munu hittast í dag til að ræða nýja stefnu Bandaríkjanna í innflytjendamálum.

Rúmlega 11 milljónir ólöglegra innflytjenda búa í Bandaríkjunum og eru stór hluti þeirra frá Mexíkó. Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur frá upphafi lofað því að herða stefnu landsins í innflytjendamálum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×