Erlent

Frambjóðandi UKIP hótaði að skjóta andstæðing

Atli Ísleifsson skrifar
Robert Blay lét orðin falla í samtali við blaðamann Daily Mirror.
Robert Blay lét orðin falla í samtali við blaðamann Daily Mirror.
Breski sjálfstæðisflokkurinn (UKIP) hefur vísað einum frambjóðenda sinna úr flokknum tveimur dögum fyrir þingkosningarnar. Ástæðan er sú að hann hótaði að skjóta pólitískan andstæðing sinn.

Robert Blay, frambjóðandi UKIP í Hampshire, suður af London, lét orðin falla í samtali við blaðamann Daily Mirror. Voru þeir Blay að ræða horfur á því að Ranil Jayawardena, frambjóðandi Íhaldsmanna, kynni einn daginn að verða fyrsti forsætisráðherra Bretlands af asískum uppruna.

„Ef hann verður það, þá mun ég koma byssukúlu fyrir á milli augna hans. Ef þessi maður verður forsætisráðherra okkar mun ég persónulega skjóta hann. Þetta skiptir mig þetta miklu máli,“ sagði Blay.

Aðspurður um uppruna Jayawardena sagði Blay: „Fjölskylda hans hefur einungis verið hérna síðan á áttunda áratugnum. Þá er maður ekki nægilega breskur til að vera á þinginu. Ég get rakið ættir mínar hér fjögur hundruð ár aftur. Hann getur það ekki.“

Jayawardena segist sjálfur gáttaður á því að maður með slíkar skoðanir geti verið valinn til að vera frambjóðandi UKIP.

Sjá má myndband af samtali blaðamannsins og Blay í frétt Daily Mirror.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×