Erlent

Frambjóðandi repúblikana réðst á blaðamann

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Greg Gianforte, í töluvert betra skapi en þegar hann réðst á blaðamanninn.
Greg Gianforte, í töluvert betra skapi en þegar hann réðst á blaðamanninn. Vísir/Getty
Frambjóðandi repúblikana til sætis í fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir hönd Montana fylkis, Greg Gianforte, réðst á Ben Jacobs, blaðamann Guardian og skellti honum í gólfið með þeim afleiðingum að gleraugun hans brotnuðu. Þingmaðurinn hefur verið kærður fyrir líkamsárás. Atvikið náðist á hljóðupptöku sem heyra má hér að neðan. 

Frambjóðandinn var í viðtali við blaðamanninn og var Jacobs að spyrja hann spurninga út í heilbrigðisfrumvarp Donald Trump, Bandaríkjaforseta, þegar frambjóðandinn virðist hafa þrotið þolinmæðin og skellti honum í gólfið. Jacobs tilkynnti atvikið til lögreglu.

„Hann skellti mér bara í jörðina,“ segir Jacobs en flytja þurfti blaðamanninn á sjúkrahús eftir árásina. „Ég held hann hafi svo gólað á mig einu sinni eða tvisvar....ég held hann hafi líka kýlt mig. Þetta er það furðulegasta sem ég hef lent í á starfsferlinum.“

Í tilkynningu frá kosningaskrifstofu Gianforte segir að blaðamaðurinn beri sjálfur ábyrgð á því sem gerðist þar sem hann hafi „komið sér inn á kosningaskrifstofu frambjóðandans án leyfis og þrýst upptökutæki í andlitið á frambjóðandanum.“ Blaðamaðurinn hafi neitað að yfirgefa svæðið.

Jacobs hefur þvertekið fyrir nokkuð slíkt og segir hann að honum hafi aldrei verið gert að yfirgefa svæðið. Hljóðupptakan sanni það. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×