Erlent

Frakkar segja afstöðu David Cameron hættulega

Samúel Karl Ólason skrifar
David Cameron og Francois Hollande í dag.
David Cameron og Francois Hollande í dag. Vísir/EPA
Yfirvöld í Frakklandi hafa sent David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, viðvörun vegna afstöðu hans. Cameron ætlar sér að endursemja um aðild Bretland að Evrópusambandinu áður en þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildina verður haldin. Frakkar segja þessar ætlanir vera „hættulegar“.

Utanríkisráðherra Frakklands, Laurent Fabius, sagði í dag að Frakkar myndu segja nei, heimti Bretland sérstöðu innan ESB.

„Ég tel þetta ferli vera hættulegt,“ sagði Fabius í viðtali á útvarpsstöðinni Inter í Frakklandi. „Bretar eru orðnir vanir því að heyra reglulega að „Evrópa sé slæm“ og þegar sú stund kemur að þau eru beðin um að velja er hættan sú að þau segi „Evrópa er slæm“.“

Samkvæmt vef Guardian sagði utanríkisráðherran að það væri ekki hægt að ganga til liðs við fótboltafélag, en ákveða í miðjum leik að nú ætti að spila rúbbí. Hann sagði að ef Bretland yfirgæfi ESB myndi það gefa mjög slæma mynd af Evrópu.

David Cameron er nú á ferðalagi þar sem hann mun heimsækja Holland, Frakkland, Pólland og Þýskaland. Þar mun hann ræða við leiðtoga ESB og biðja þá um að sýna sveigjanleika. Cameron ræddi við Francois Hollande, forseta Frakklands, í dag. Þar sagði hann að staðan eins og hún er í dag, sé óásættanleg fyrir Bretland.

„Ég hef trú á því að breytingar séu mögulegar sem hagnist ekki bara Bretlandi heldur allri Evrópu,“ er haft eftir Cameron á vef BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×