Handbolti

Frakkar enn og aftur í úrslit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Frakkar eru komnir í úrslit á HM í handbolta eftir sex marka sigur á Slóvenum, 31-25, í fyrri undanúrslitaleiknum í kvöld.

Frakkar hafa komist í úrslit á fjórum af síðustu fimm heimsmeistaramótum. Þeir eru ríkjandi heimsmeistarar og fá tækifæri til að verja titilinn í París á sunnudaginn þegar þeir mæta annað hvort Norðmönnum eða Króötum.

Frakkar voru yfir allan leikinn í kvöld og héldu Slóvenum alltaf í þægilegri fjarlægð. Þremur mörkum munaði á liðunum í hálfleik, 15-12, og þegar uppi var staðið var munurinn sex mörk, 31-25.

Skyttan öfluga Nedim Remili var markahæstur í franska liðinu með sex mörk. Valentin Porte skoraði fimm og Kentin Mahe og Daniel Narcisse fjögur mörk hvor. Vincent Gerard varði vel í markinu, alls 16 skot (41%).

Jure Dolenec skoraði fimm mörk fyrir Slóveníu sem saknaði meira framlags frá sínum lykilmönnum í sókninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×