Handbolti

Frændfélögin á leið í úrslit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukar fagna.
Haukar fagna. vísir/daníel
Frændfélögin Valur og Haukar hafa verið mikil bikarlið á síðustu árum og það verður ekki mikil breyting á því ef spámenn Fréttablaðsins hafa rétt fyrir sér enda búast þeir við að liðin mætist í úrslitaleiknum á laugardaginn.

Liðin hans séra Friðriks eiga bæði möguleika á því að vinna sinn fjórða bikarmeistaratitil á stuttum tíma, Haukar frá og með 2010 og Valsmenn frá og með 2008. Haukar eru núverandi bikarmeistarar og hafa náð því að verja bikarmeistaratitilinn einu sinni áður en Haukaliðið vann bikarinn bæði 2001 og 2002. Mótherjar þeirra, FH (Valur) og ÍBV (Haukar) hafa aftur á móti þurft að bíða lengi eftir að komast í bikarúrslitaleikinn, FH-ingar í sextán ár og Eyjamenn í rétt tæpan aldarfjórðung.

Spámenn Fréttablaðsins, sex leikmenn úr liðunum í Olís-deildinni sem náðu ekki að tryggja sér sæti á bikarúrslitahelginni, spá allir að Haukar og Valur mætist í bikarúrslitaleiknum í ár og fimm af sex búast við því að Valsmenn fagni titli á morgun.

Valur og FH mætast í fyrri undanúrslitaleiknum klukkan 17.15 en þetta er þriðji leikur liðanna á fjórtán dögum. Valsmenn unnu hina báða. FH-ingar hafa ekki komist í bikarúrslitaleikinn á þessari öld (síðast 1999) og ekki unnið bikarinn í meira en tvo áratugi. FH tapaði í undanúrslitunum í fyrra og sat þá í fjórða sinn eftir í undanúrslitunum á síðustu sex árum.

ÍBV og Haukar, Íslands- og bikarmeistararnir og liðin sem mættust í lokaúrslitunum síðasta vor, mætast í seinni undanúrslitaleiknum klukkan 20.00. ÍBV vann Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor eftir sigur í oddaleik á Ásvöllum en það eru liðin 24 ár síðan Eyjamenn urðu bikarmeistarar í fyrsta og eina skiptið (1991).

Það er jafnframt í eina skiptið sem karlalið ÍBV hefur komist í úrslitaleikinn. Haukar hafa verið þar sjö sinnum frá þeim tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×