Fótbolti

Frægasta gríman í fótboltanum í dag | Já þetta gerðist í alvörunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þýska fótboltaliðið St Pauli var að kynna nýjan leikmann til leiks og vildi hafa knattspyrnustjórann Ewald Lienen með á myndinni. Vandamálið var bara að stjórinn komst ekki á staðinn og hvað var þá hægt að gera?

Lausnin hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum, sumir hafa gagnrýnt þetta en flestir hafa nú bara brosað út í annað.

Framherjinn Marvin Ducksch er að koma til St Pauli frá Borussia Dortmund og hann var kynntur til leiks á blaðamannafundi á Millerntor-Stadion í St Pauli hverfi Hamborgar.

Hinn 22 ára gamli Marvin Ducksch hefur ekki fengið mörg tækifæri hjá Borussia Dortmund og ætlar nú að reyna að endurvekja feril sinn hjá b-deildarliði St Pauli.

St Pauli bindur líka miklar vonir til leikmannsins og því var mikið lagt upp úr því að kynna nýja framherjann fyrir blaðamönnum.

Knattspyrnustjórinn Ewald Lienen komst hinsvegar ekki á fundinn og þá var góð ráð dýr. Starfsmenn St Pauli dóu samt ráðalausir því einn þeirra setti upp grímu með andliti Ewald Lienen og stillti sér upp við hlið nýja leikmannsins.

Þetta átti ekki að vera grín heldur var ætlunin í fyrstu að reyna að komast upp með þetta. Glöggir menn á samfélagsmiðlum voru hinsvegar fljótir að sjá manninn með grímuna að þykjast vera knattspyrnustjórinn Ewald Lienen.

Myndin fór á flug á netinu og í framhaldinu hafa St Pauli menn grínast með þetta og birt mynd af grímunni frægu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×