Lífið

Frábært að byrja á einhverju nýju um fimmtugsaldurinn

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég held að það haldi heilsunni við að hafa eitthvað fyrir stafni sem maður hefur gaman af,“ segir Dóra.
"Ég held að það haldi heilsunni við að hafa eitthvað fyrir stafni sem maður hefur gaman af,“ segir Dóra. Vísir/Vilhelm
Miður aldur er ákjósanlegur til að fara út í eigin rekstur, að mínu mati. Það er frábært að byrja á einhverju nýju um fimmtugsaldurinn ef fólk getur. Jafnvel seinna ef heilsan er góð. Byrja bara smátt og byggja ofan á, það er affarasælast,“ segir Dóra Garðarsdóttir verslunarkona glaðlega.

Hún talar af reynslu. Byrjaði rúmlega fimmtug að flytja inn töskur, skartgripi, slæður og fleira fínerí og rekur í dag hina vinsælu verslun Skarthúsið á Laugavegi 44.

„Dóttir mín var smávegis að selja í Kolaportinu og á markaði á Lækjartorgi og ég fór að hjálpa henni, svo flutti hún til útlanda, þá tók ég við. Þannig flæktist ég inn í þetta,“ lýsir hún. Kveðst hafa verið í Kolaportinu í eitt ár um helgar og á mörkuðum hér og þar.

„Þá fékk ég mína reynslu og fann hvað gekk. Auðvitað þarf ég að fylgjast vel með en það kemur af sjálfu sér. Eftir fyrsta árið fékk ég leigt á Laugaveginum og þar hef ég verið í tuttugu ár.“

Skyldi hún ekkert hafa hugleitt að opna í verslunarmiðstöðvunum? „Nei, það hefur aldrei komið til greina hjá mér. Ég læt þessa búð nægja og reyni að sinna henni vel,“ svarar hún.

Við sitjum í huggulegheitum heima hjá Dóru, sötrum kaffi og borðum bláberjavínarbrauð úr Sandholtsbakaríi, ekkert að hugsa um línurnar þessa stundina, teljum okkur trú um að best sé að borða allt, bara í mátulegum skömmtum. Dóra þarf heldur ekki að hafa áhyggjur, fitt og kvikk í hreyfingum þótt komin sé á eftirlaunaaldur. Beðin um heilræði handa okkur hinum sem viljum líka vera unglegar segir hún:

„Það er eitt sem hefur haldið mér gangandi gegnum tíðina, það er Kramhúsið. Þangað fer ég í hádeginu í leikfimi eða jóga. Þar eru frábærir kennarar og alltaf gaman að hitta hópinn sem er þar á sama tíma. Það hefur gert mikið fyrir mig að komast í svona góðar æfingar. En svo held ég líka að það haldi heilsunni við að hafa eitthvað fyrir stafni sem maður hefur gaman af.“

Níu systkini föðurlaus

Dóra ólst upp suður í Garði og byrjaði snemma að taka til hendinni, enda elst af níu systkinum. „Það var nóg að gera á heimilinu. Auðvitað reyndi ég að hjálpa til, fara í sendiferðir í búðina og passa yngri systkinin. Svo fór ég fljótt að vinna í fiskinum á sumrin.“

Sorgin kvaddi dyra þegar Dóra var unglingur því faðir hennar, Garðar Guðmundsson skipstjóri, fórst með bátnum Rafnkeli GK 210 í janúarbyrjun árið 1960, ásamt fimm öðrum ungum mönnum. Dóra var þá í lýðháskóla úti í Svíþjóð og hafði verið fjarri fjölskyldunni um hátíðarnar en kom heim til að vera við útför föður síns og búið var með námið í bili.

„Vissulega breyttist líf okkar mikið við það að pabbi dó. Ég var sautján ára og yngsta systkinið fjögurra ára og eins og geta má nærri voru þetta mikil viðbrigði,“ rifjar hún upp.

„Móðir mín fór út að vinna en hún hafði verið heimavinnandi. Við öxluðum öll meiri ábyrgð eftir þetta og vorum samhent, held ég að ég geti sagt. En við vorum öll hraust og höfðum aðgang að mikilli vinnu á Suðurnesjunum svo við björguðum okkur. Vorum flest send á heimavistarskólann á Núpi í Dýrafirði og lukum gagnfræðaprófi þar en fórum fljótlega að vinna fyrir okkur eftir það. Bræður mínir menntuðu sig síðar, einn varð rafvirki og hinir fóru í Stýrimannaskólann og urðu dugmiklir skipstjórar. Við systurnar fórum í menntaskóla eftir að við eignuðumst börnin og lukum stúdentsprófi, ég lét staðar numið þar en ein varð kennari og önnur röntgentæknir.“

Dóra var 45 ára þegar hún útskrifaðist stúdent úr Kvennaskólanum um leið og elsta dóttir hennar. „Við mæðgurnar vorum samtímis í Kvennó en þó ekkert mikið að læra saman. Ég átti mínar vinkonur og hún sínar,“ segir hún og kveðst hafa notið hverrar stundar í skólanum.

„Einu sinni var sprungið á bílnum mínum hér í hlaðinu þegar ég átti að mæta í sögutíma og ég tók leigubíl í skólann því ég tímdi ekki að missa af kennslustundinni. Þótti mér saga þó ekki skemmtilegt fag þegar ég var unglingur.“

„Dóttir mín var smávegis að selja í Kolaportinu og á markaði á Lækjartorgi og ég fór að hjálpa henni, svo flutti hún til útlanda, þá tók ég við. Þannig flæktist ég inn í þetta.“
Kynntust á balli

Ástinni í lífi sínu, Ögmundi Magnússyni, kynntist Dóra á balli í samkomuhúsinu Krossinum í Keflavík og var tuttugu og eins árs þegar hún hóf búskap með honum suður í Keflavík.

Fljótlega komu börnin til sögunnar. Þau urðu fimm talsins, þrjár dætur og tveir synir. Dóra annaðist uppeldið að mestu leyti því Ögmundur var sjómaður, lengi skipstjóri á bátum sem flestir voru gerðir út frá Suðurnesjum og var mest á síld og loðnu hingað og þangað um landið, að sögn Dóru.

En var hún ekki hrædd um líf hans á sjónum, eftir að hafa misst föður sinn í hörmulegu slysi? „Jú, ef veður var vont þá hafði það auðvitað áhrif á mig. Ég var alltaf að fylgjast með veðurspánni, lifði fyrir það. Ekki voru farsímarnir þá til að heyra í manninum og frétta hvernig gengi en ef hann kom í land einhvers staðar þá hringdi hann heim.“

Dóra segir Ögmund hafa verið farsælan skipstjóra. Þó hafi honum verið sýnt í tvo heimana þegar hann var á Sæbjörginni VE 56 og hún varð vélarvana út af Hornafirði í ofsaveðri nokkrum dögum fyrir jól 1984. Bátinn rak stjórnlaust upp að ströndinni uns hann strandaði um 130 metra frá landi í svonefndri Hornsvík, austur af Stokksnesi.

Fjórtán manns voru um borð og til allrar lukku tókst slysavarnarmönnum á Höfn að bjarga allri áhöfninni í land þótt aðstæður væru erfiðar.

„Þetta var auðvitað mikið áfall,“ segir Dóra sem kveðst ekkert hafa frétt af hremmingunum fyrr en þær voru um garð gengnar.

Hún segir Ögmund hafa verið nokkur ár á sjó eftir þetta atvik en síðan komið í land, farið að vinna við bókhald og reka bókhaldsstofu. „Við hjónin erum bæði á fullu í vinnu enn þá þótt við séum komin yfir sjötugt,“ segir hún. „Það er svo gaman að hafa eitthvað að gera.“

Þá fór ég að versla

Eftir 14 ára búsetu í Keflavík fluttu þau Dóra og Ögmundur í Hlíðarnar í Reykjavík og þar hafa þau verið í 35 ár. Dóra vann um tíma á skrifstofu hjá Landssambandi smábátaeigenda.

„Það var mjög gott að vinna hjá smábátaeigendum en ég vildi samt ekki ílengjast þar fram að sjötugu svo ég ákvað að hætta og fara frekar í sjálfstæðan rekstur. Þá fór ég að versla þótt ég hefði aldrei unnið í búð áður og sé ekki eftir því.“ Hún kveðst hafa fengið mikinn stuðning frá fólkinu sínu.

„Börnin hafa öll komið að rekstrinum á einn eða annan hátt. Það er mikils virði,“ segir hún og nefnir að stelpurnar hennar hafi stundum farið með henni í innkaupaferðir til útlanda.

Athafnasemi Dóru hefur ekki einskorðast við verslunina. Hún keypti hús ömmu sinnar og afa í Garðinum fyrir nokkrum árum og hefur rekið þar gistiheimili í þrjú sumur.

„Ég var í Garðinum í fyrrasumar að sinna ferðaþjónustunni og fannst það gaman,“ segir Dóra, sem á ekki langt að sækja seigluna. Móðir hennar, Ása Eyjólfsdóttir, 96 ára, býr ein og hugsar um sig að miklu leyti sjálf, að sögn dótturinnar.

Dóra á ellefu barnabörn. „Allt hefur gengið prýðilega hjá börnum mínum og barnabörnum. Lífið hefur farið um mig tiltölulega mjúkum höndum ef frá er talinn föðurmissirinn. Það sleppur enginn við allt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×