Körfubolti

Frábær varnarleikur á lokasprettinum gegn Dönum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Strákarnir í U-18 ára landsliðinu.
Strákarnir í U-18 ára landsliðinu. mynd/kkí
Íslenska körfuboltalandsliðið skipað leikmönnum 18 ára og yngri vann fimm stiga sigur, 73-68, á Dönum í B-deild Evrópumótsins í dag.

Ísland er þar með komið með fimm stig í C-riðli eftir tvo sigra og eitt tap.

Íslenska liðið var einu stigi undir, 58-59, fyrir 4. leikhlutann. Þar skelltu strákarnir í lás í vörninni og fengu aðeins á sig níu stig. Á meðan skoruðu þeir 15 og tryggðu sér fimm stiga sigur, 73-68.

Eyjólfur Halldórsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 17 stig. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson kom næstur með 15 stig en hann stal boltanum einnig átta sinnum í leiknum.

Njarðvíkingarnir Adam Eiður Ásgeirsson og Snjólfur Marel Stefánsson voru einnig öflugir. Adam skoraði 12 stig og Snjólfur var með átta stig, sex fráköst og fjórar stoðsendingar.

Næsti leikur Íslands er gegn Eistlandi á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×