Skoðun

Frábær árangur Keflavíkurflugvallar

Björn Óli Hauksson skrifar
Keflavíkurflugvöllur var nú á dögunum valinn á heiðurslista Alþjóðasamtaka flugvalla, Airports Council International (ACI), með bestu flugvöllum heims. Viðurkenningin, ACI Director General's Roll of Excellence, er veitt fyrir frábæran árangur í þjónustukönnunum samtakanna, en Keflavíkurflugvöllur hefur jafnan hlotið afar góða einkunn frá farþegum mörg undanfarin ár. Þannig völdu flugfarþegar Keflavíkurflugvöll besta flugvöll í Evrópu árið 2009 og besta flugvöll í Evrópu í sínum stærðarflokki árið 2011. Þjónustukannanir ACI mæla meðal annars þætti eins og þjónustu við innritun og vopnaleit, gæði verslana og veitinga á flugvellinum, vegabréfs- og tollskoðun, umsýslu farangurs og hvort almennt takist að halda flugi á áætlun.

Starfsfólk í fremstu röð

Viðurkenningin nú staðfestir að á Keflavíkurflugvelli er þjónusta við farþega á heimsmælikvarða. Síðustu árin hefur verið unnið markvisst í því í að uppfylla væntingar viðskiptavina, sem er sérstaklega nauðsynlegt þegar farþegaaukning er eins mikil og verið hefur. Við hjá Isavia erum ákaflega stolt af þessum mikilsverða árangri sem fyrst og fremst er að þakka frábæru starfsfólki og traustum samstarfsaðilum á flugvellinum. Keflavíkurflugvöllur er ekki einungis megingátt ferðamanna til landsins heldur einnig lykilhlekkur í uppbyggingu íslensks efnahagslífs.

Verkefni Isavia grundvallast á öflugu starfsliði sem sinnir fjölbreyttum, sérhæfðum og krefjandi störfum um allt land, allan ársins hring. Starfsemi félagsins skiptir miklu máli fyrir íslenskt samfélag enda ber fyrirtækið ábyrgð á því að rekstur allra flugvalla landsins og flugumferð til og frá landinu og innan þess gangi vel og örugglega fyrir sig. Það er mikilvægt fyrir starfsemina á Keflavíkurflugvelli að til staðar sé öflug flugleiðsöguþjónusta til að leiðbeina flugvélum til og frá Íslandi. Þá eru traustir starfsmenn á flugvöllunum á Akureyri, Reykjavík og Egilsstöðum reiðubúnir að taka á móti millilandaflugvélum, þau fáu skipti sem veður hamlar flugi til Keflavíkur.

Mikil uppbygging framundan

Framundan eru stór verkefni hjá Isavia við frekari uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli sem tryggja mun þjónustu við ört stækkandi hóp ferðamanna sem leggja leið sína til landsins. Fyrr á þessu ári hófust framkvæmdir við nýtt farangursflokkunarkerfi sem miða að því að tvöfalda afkastagetu þess og nú á dögunum tók Hanna Birna Kristjánsdóttir fyrstu skóflustunguna að stækkun suðurbyggingar flugstöðvarinnar þar sem bætast munu við sex ný hlið. Slíkar breytingar geta auðvitað haft tímabundin áhrif á starfsemina á flugvellinum en starfsfólk Isavia mun leysa þessi nýju verkefni með sama þrótti og einkennt hefur margverðlaunaða starfsemi félagsins á undanförnum árum.




Skoðun

Sjá meira


×