Erlent

Frá bikiní til búrkíni: Sagan endurtekur sig með öfugum formerkjum

Una Sighvatsdóttir skrifar
Það var franski tískuhönnuðurinn Louis Reard sem kynnti fyrstur til sögunnar mun efnisminni sundfatnað en áður hafði sést á kvenlíkama, á fegurðarsamkeppni í Frakklandi sumarið 1946.

Sköpunarverk sitt nefndi hann bikiní, í höfuðið á samnefndu kóralrifi í Marshall-eyjaklasanum þar sem Bandaríkjamenn stunduðu kjarnorkutilraunir á þessum tíma.

Bikiníklæddar konur sektaðar

Bikiníið náði lítilli útbreiðslu framan af enda þótti það beinlínis hneykslanlegur klæðnaður og var bannað með lögum og voru dæmi um að konur væru sektaðar á ströndum Frakklands, Ítalíu, Belgíu og Þýskalands, þar sem banninu var ekki aflétt fyrr en árið 1970.

Bikiníið varð hluti af kvennabyltingunni, og er eitt af mörgum dæmum úr mannkynssögunni þar sem konur sigrast á tilraunum yfirvalda, fyrst og fremst karla, til þess að stjórna því með lögum og reglum hvers konar klæðaburður sé konum fyrir bestu.

Sagan endurtekur sig með öfugum formerkjum

En þeirri sögu er hvergi nærri lokið. Bikiníbann síðustu aldar kallast um margt á við tilraunir franskra yfirvalda til þess að banna búrkini sundfatnað múslímakvenna. Franskir stjórnmálamenn, bæði innanríkisráðherrann Manuel Valls og forsetaframbjóðandinn Nicolas Sarkozy tjáðu sig báðir á þá leið í vikunni að konur í búrkíníum séu kúgaðar og standa verði vörð um frelsi þeirra með því að banna þeim að klæðast búrkum.

Múslímakonur sjálfar segjast hinsvegar vilja hafa frelsið til að velja, og margar konur virðast ætla að fullnýta sér það frelsi því sala á búrkíníum hefur rokið upp síðan bannið kom til umræðu.

Sjá einnig: Leysir engan vanda að banna múslímakonum að hylja sig

Ekki útséð um búrkiní-bannið

Mannréttindasamtök kærðu búrkinibannið og nú fyrir helgi ógilti æðsti stjórnsýsludómstóll Frakklands bannið með þeim rökum að það brjóti gegn frelsi einstaklingsins til trúar og athafna.

Franska þingið gæti þó enn farið þá leið að setja landslög sem banni þennan klæðnað kvenna. Fari svo má að vissu leyti segja að sagan sé að endurtaka sig í þeirri aldalöngu baráttu sem háð hefur verið um yfirráð yfir líkömum kvenna, í þetta sinn frá bikiníi til búrkínís.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×