Innlent

Fótboltamenn seldu lóð sína í Kópavogi

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Knattspyrnuakademían ætlaði að reisa íþróttahótel og fleira á Vallakór 6.
Knattspyrnuakademían ætlaði að reisa íþróttahótel og fleira á Vallakór 6. Fréttablaðið/Ernir
Bæjaryfirvöld í Kópavogi heimiluðu breytingar á skipulagi á lóðinni Vallakór 6 þannig að reisa má þar íbúðarhúsnæði í stað atvinnuhúsnæðis. Um leið seldi Knattspyrnuakademía Íslands lóðina til verktakans SS-húss.

Knattspyrnuakademían fékk lóðina úthlutaða 2006 ásamt samliggjandi lóð þar sem félagið byggði íþróttahús fyrir starfsemi sína. Vallakór 6 var skilgreind sem atvinnu- og íbúðalóð.

Eftir hrunið keypti Kópavogsbær íþróttahúsið enda var það metið hagstæðara fyrir bæinn en að halda áfram að leigja aðstöðuna þar. Skilyrði var að Knattspyrnuakademían myndi ekki skila inn lóðinni og fá hana endurgreidda. Fyrir byggingarréttinn á lóðinni hafði félagið borgað ríflega 176 milljónir króna og hefur auk þess borið af henni lóðarleigu og fasteignagjöld.

Samkvæmt reglum bæjarins er honum heimilt að leysa til sín úthlutaðar lóðir ef framkvæmdir á þeim eru ekki hafnar innan tólf mánaða. Þrátt fyrir þetta og þótt félagið hafi glímt við rekstrarerfiðleika hefur Knattspyrnuakademían haldið lóðinni allar götur síðan.

Ármann kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi.
„Eftir hrunið þurftum við að greiða út lóðir fyrir 15 milljarða og bærinn var því mjög feginn ef aðilar skiluðu ekki inn lóðum,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri. Það hafi heldur ekki komið til greina að bærinn leysti til sín lóðina og auglýsti til úthlutunar þótt leyfa ætti byggingu íbúða á lóðinni og breyta þannig eðli hennar.

„Það hefði verið alger undantekning og menn hefðu ekki gætt meðalhófs og jafnræðis ef þeir hefðu tekið lóðina af þessum aðilum. Þegar við viljum ekki fá lóðina er ekki forsvaranlegt að rífa hana af þeim þegar aðeins fer að glæðast á markaðinum,“ útskýrir bæjarstjórinn.

SS-hús er þessa dagana að selja félaginu LFC-invest lóðina og hefur bæjaráð samþykkt framsal hennar. Kaupverð í viðskiptunum hefur ekki verið gefið upp en samkvæmt afsali þegar SS-hús keypti af Knattspyrnuakademíunni var veð tekið í lóðinni vegna bankabréfs upp á 395 milljónir króna sem sagt er að SS-hús hafi stofnað til vegna kaupanna.

„Við erum sáttir við þessi málalok,“ segir Guðni Bergsson, einn fimm hluthafa Knattspyrnuakademíunnar, aðspurður hvernig félagið komi fjárhagslega út úr lóðamálinu. „Starf okkar heldur áfram, bæði með námskeiðahaldi og skólastarfi með Fjölbrautaskóla Suðurlands og það er það sem stendur upp úr.“

Meðeigendur Guðna í Knattspyrnuakademíunni eru Ásgeir Sigurvinsson, Logi Ólafsson og feðgarnir Arnór og Eiður Smári Guðjohnsen.

Ármann segir þessi viðskipti jákvæð fyrir Kópavogsbæ sem vilji uppbyggingu á staðnum. Fjármögnun hennar hafi verið tryggð.

„Það er búið að vinna allar teikningar og þeir vilja fara að grafa sem fyrst. Það er talað um að það vanti minni íbúðir á markaðnum og þarna erum við með frekar litlar íbúðir innan um skóla, leikskóla, stærstu íþróttamannvirki bæjarins og ekki langt í sundlaug, golfvöll og reiðhöll. Við erum að ná því markmiði okkar að þarna verði byggt og þarna komi nýir íbúar,“ segir bæjarstjórinn í Kópavogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×