Fótbolti

Fótboltamaður bjargaði lífi manns í fjórða sinn á ferlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Framherjinn Francis Koné kom enn á ný til bjargar inn á fótboltavellinum á dögunum nú í leik í tékknesku deildinni þar sem hann spilar með liði Slovacko.

Þessi 26 ára landsliðsmaður Tógó var fljótur að hugsa þegar markvörður andstæðinganna lenti í slæmu samstuði við samherja og lá eftir hreyfingarlaus á vellinum.

Francis Koné sá að eitthvað mikið var af og var fljótur að bregðast við og gat þá komið í veg fyrir að markvörðurinn Martin Borkovec gleypti tunguna sína.

Koné tókst það og setti markvörðinn síðan í læsta hliðarlegu þar til að sjúkraliðar komu til hjálpar.

Atvikið gerðist á 29. mínútu leiks Slovacko og Bohemians en Martin Borkovec lenti þá í samstuði við liðsfélaga sinn Daniel Krch.

Ekki að Francis Koné hafi verið nógu mikil hetja eftir þetta atvik þá sagði hann frá því eftir leikinn að þetta hafi verið í fjórða sinn á fótboltaferlinum þar sem hann bjargaði lífi inn á vellinum. Það hafði líka gerst tvisvar í Afríku og einu sinni í Tælandi.

Martin Borkovec þakkaði Francis Koné fyrir lífsgjöfina inn á fésbókinni og tékkneska deildin sagði Koné hafa verið hetju leiksins.

Það má sjá þetta atvik í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×