Innlent

For­manns­slagur hjá Lands­björg: Hundruð björgunar­sveita­manna á Ísa­firði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Meðfylgjandi mynd tók Sigurður Ólafur Sigurðsson á setningu landsþings Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Ísafirði í dag.
Meðfylgjandi mynd tók Sigurður Ólafur Sigurðsson á setningu landsþings Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Ísafirði í dag.
Níunda landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar var sett í íþróttahúsinu á Ísafirði í dag. Þingið, sem haldið er annað hvert ár, sitja á fimmta hundruð fulltrúar úr björgunarsveitum og slysavarnadeildum landsins. Á þinginu verða línur lagðar fyrir næstu starfsár félagsins en eftir einn annasamasta vetur í manna minnum er ljóst að breytinga er þörf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þar segir að búast megi við að til tíðinda dragi á þinginu þar sem nú verður í fyrsta sinn kosið milli formannsefna en tvö eru í framboði til formanns.

Annars vegar Margrét L. Laxdal úr Slysavarnadeildinni Dalvík og Smári Sigurðsson úr Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri. Fráfarandi formaður er Hörður Már Harðarson sem gefur ekki kost á sér til endurkjörs. Kjörið fer fram á laugardag og verður tilkynnt um nýjan formann Slysavarnafélagsins Landsbjargar klukkan 12:30. Eftir hádegi fer svo fram kjör til stjórnar þar sem frambjóðendur hafa aldrei verið fleiri, eða 15 talsins um átta sæti.

Í tengslum við þingið er blásið til Björgunarleika á morgun, laugardag, þar sem 18 harðsnúin lið frá björgunarsveitum keppa sín á milli í ýmsum björgunartengdum þrautum. Leikarnir fara fram í og við Ísafjarðarbæ og munu varla fara fram hjá bæjarbúum. Mikill heiður þykir að sigra í Björgunarleikum og hafa liðin stundað stífar æfingar síðustu vikur.

Dagskrá landsþings lýkur svo með árshátíð á laugardagskvöldinu þar sem m.a. verður tilkynnt um hvaða lið er sigurvegari björgunarleikanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×