Innlent

Forvarnarlyf gæti dregið úr HIV-smitum

Una Sighvatsdóttir skrifar
Miklar framfarir hafa orðið í lyfjameðferð við HIV sem gerir fólki kleift að lifa með veirunni án þess að þróa með sér alnæmi. Útbreiðsla HIV smita hefur hinsvegar haldist óbreytt á Vesturlöndum undanfarin ár en innleiðing forvarnarlyfsins Truvada gæti breytt því til hins betra.

„Það eru bundnar miklar vonir við þetta lyf um allan heim, að það verði til þess að minnka útbreiðslu HIV og það eru þegar tölfræðilegar sannanir fyrir því á svæðum eins og í Kaliforníu í kringum San Francisco sem hafa verið þekkt svæði sem takast á við HIV," segir Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV samtakanna.

Um tugur nýgreininga er á HIV smitum á ári hverju á Íslandi en alnæmistilfelli hafa verið að jafnaði eitt á ári síðasta áratug.
Nýgreiningar HIV-smita á hverju ári

Ríflega 300 manns hafa greinst með HIV á Íslandi frá árinu 1983 og hefur fjöldi nýrra tilfella á hverju ári haldist nokkuð stöðugur. Þannig greindust 12 einstaklingar með HIV í fyrra. Í fæstum tilfellum leiðir HIV hinsvegar til alnæmis lengur, eða einu sinni á ári að jafnaði. Það má meðal annars þakka samsettri meðferð sem hefur verið í boði í áraraðir þar sem Truvada er notað með öðrum lyfjum.

Bandaríska lyfjaeftirlitið samþykkti Truvada sem forvarnarlyf árið 2012. Lyfið er hinsvegar dýrt, mánaðarskammtur kostar yfir 140 þúsund og hefur því ekki náð mikilli útbreiðslu. En nú fyrir helgi varð Noregur fyrsta landið í heiminum til bjóða Truvada ákveðnum lykilhópum, sem eru í áhættu vegna HIV-smits, þeim að kostnaðarlausu.

Gæti sparað heilbrigðiskerfinu til lengri tíma litið

Einar Þór bendir á að HIV-smitin sjálf séu heilbrigðiskerfinu dýr. „Lyfjameðferð og ummönnun um fólk sem er með HIV kostar mjög mikla peninga, við erum að tala um háar upphæðir sem hver sjúklingur kostar sjúkratryggingakerfið okkar á hverju ári. Þannig að þetta lyf, ef það er notað rétt inn í þá lykilhópa sem við erum að nefna, þá er þetta eitthvað sem við teljum að verði til sparnaðar."

Til lykilhópa geta til dæmis talist makar HIV-jákvæðra einstaklinga, vændiskonur og sprautufíklar. Einar bendir á að fleiri nýungar séu komnar fram á sjónarsviðið sem eftir eigi að innleiða á Íslandi, þar á meðal svo kölluð hraðpróf sem geta greint erfiða smitsjúkdóma eins og HIV og lifrarbólgu B með einföldum hætti á innan við tveimur klukkustundum og geri allt ferlið bæði ódýrara og auðveldara fyrir áhættuhópa.

„Þannig að þetta er allt að opnast og ef það má tala um að normalísera svona erfiða sjúkdóma sem hafa áhrif á líf fólks þá eru þetta tæki sem við erum að fá til að létta á þessum erfiðu málum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×