Innlent

Forvarnarátak Síldarvinnslunnar þegar búið að sanna sig

svavar hávarðsson skrifar
Átakið hófst í Mottumars í fyrra. Skipið er Birtingur NK - gamli Börkur, aflahæsta fiskiskip Íslandssögunnar.
Átakið hófst í Mottumars í fyrra. Skipið er Birtingur NK - gamli Börkur, aflahæsta fiskiskip Íslandssögunnar. Mynd/Hákon Ernuson
Átak Síldarvinnslunnar í Neskaupstað þar sem starfsmönnum er boðin ristilspeglun þeim að kostnaðarlausu hefur þegar skilað markverðum árangri. Yfirlæknir á sjúkrahúsinu á staðnum segir allar líkur á því að þegar hafi verið komið í veg fyrir krabbamein.

„Ég tel mig geta sagt með töluverðri vissu að frumkvæði fyrirtækisins hafi að öllum líkindum beinlínis komið í veg fyrir krabbamein,“ segir Jón H. H. Sen, yfirlæknir á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað, sem hefur umsjón með ristilspeglunum starfsfólksins.

Í eðli sínu er átakið hugsað sem fyrirbyggjandi aðgerð, að skoða fólk sem er einkennalaust en þegar segist Jón hafa fjarlægt mikinn fjölda svonefndra sepa úr ristlum starfsmanna, en separnir geta verið forstig krabbameins. Í tveimur tilvikum voru separnir sem fjarlægðir voru það stórir að þeir hefðu orðið að krabbameini með tímanum, segir Jón en búið er að spegla um 50 starfsmenn fyrirtækisins og verkefnið því hálfnað. Hjá Síldarvinnslunni starfa 240 manns en átakið varðar 99 þeirra sem eru fimmtugir eða eldri. Stefnt er að því að ljúka speglun allra þeirra starfsmanna sem það kjósa fyrir áramótin.

Forsaga átaksins er sú að á gamlársdag árið 2014 var undirritaður samningur á milli Síldarvinnslunnar og Heilbrigðisstofnunar Austurlands um átakið. Í samningnum fólst að Síldarvinnslan færði sjúkrahúsinu nýtt fullkomið speglunartæki að gjöf. Jón segir að gjöfin hafi þegar sannað sig sem framfaraskref, bæði með tilliti til átaks Síldarvinnslunnar en ekki síður fyrir alla aðra sem sjúkrahúsið þjónar, og til dæmis hafi náðst að vinna niður biðlista eftir ristilspeglun sem voru staðreynd þegar tækið var tekið í notkun.

Hákon Ernuson, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar, segir að framhald verkefnisins komi vel til greina, en það yrði gert í samráði við Jón Sen yfirlækni. Starfsmenn fari allir í heilsufarsskoðun á þriggja ára fresti í boði fyrirtækisins; þær séu misjafnlega viðamiklar sem fari eftir aldri, en 60 ára og eldri sé gefinn kostur á því að fara á hverju ári.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×