Innlent

Fortíðardýrkun að reynast okkur dýr í umhverfismálum

Svavar Hávarðsson skrifar
Ný skýrsla staðfestir það sem hefur lengi verið vitað – vegasamgöngur eru helsta matarholan við að draga úr losun hérlendis. En við erum jafnframt að falla á tíma.
Ný skýrsla staðfestir það sem hefur lengi verið vitað – vegasamgöngur eru helsta matarholan við að draga úr losun hérlendis. En við erum jafnframt að falla á tíma. vísir/pjetur
Ný skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um loftslagsmál dregur fram skýra mynd, að mati þeirra sem gerst þekkja. Ekkert annað en stórtækar aðgerðir duga til ef við sem þjóð ætlum að standa undir alþjóðlegum skuldbindingum okkar.

Langþráð plagg

Hagfræði­stofn­un (HHÍ) afhenti stjórnvöldum greiningarskýrslu sína um möguleika Íslands til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti á mánudag. Umhverfisráðherra bað um greininguna strax árið 2015 og átti að birta hana fyrir Parísarráðstefnuna í desember sama ár. Skýrslan skilaði sér ekki í tíma en lítur þess í stað ljós fyrst núna.

Hins vegar kynnti þáverandi ríkisstjórn sóknar­áætlun sína í loftslagsmálum sem var harðlega gagnrýnd af forsvarsmönnum náttúruverndarsamtaka, stjórnarandstöðuþingmönnum á Alþingi og fleirum. Höfðu menn á orði að erfitt væri að koma auga á í hverju sóknin fælist. Þar er að finna kafla um rafbílavæðingu, aðgerðir í landbúnaði, átak gegn matarsóun og eflingu kolefnisbindingar með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis, eins og í mörgum öðrum skýrslum, kannski öllum, sem unnar hafa verið síðustu árin. En engin tímasett markmið um samdrátt í losun eða kolefnisbindingu var að finna fyrir þessa þætti eða hve mikið fjármagn ætti að tryggja í hvern og einn þeirra. Þetta er meira áætlun um að gera áætlun, sagði framkvæmdastjóri Landverndar í viðtali við Fréttablaðið.

Allir virðast sammála um að skýrsla HHÍ sé vel unnin – skýr og læsileg. Ekkert sem þar er að finna komi hins vegar á óvart.

Stefán Gíslason
Horft aftur – ekki fram

Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur hjá ráðgjafarfyrirtækinu Environice, segir stjórnvöld hafi verið „óhóflega værukær“. Mikið hafi verið gert af því að tala upp stöðu Íslands en afrek fortíðarinnar nýtt í því samhengi. Þar sé til dæmis vinsælt að tala um hitaveitubyltinguna þegar nærtækara væri að ræða verkefnin sem liggja vel skilgreind á borðinu – og hafa gert um langt árabil. „Loftslagsmálin, og umhverfismál almennt, þurfa að hætta að vera afgangsmál á borðshorninu sem kíkt er á eftir vinnu, ef svo má segja. Þetta verður að vera aðalmálið ef við ætlum að komast inn í framtíðina,“ segir Stefán.

Hann nefnir fjölmargt sem blasi við að þurfi að vera í forgangi. Fyrst af öllu að hætta við öll áform um olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Allt slíkt tal sé hjákátlegt þegar fyrir liggur að stór hluti allrar olíu og allra kola sem fundist hafa verði að liggja óhreyfður í jörðu ef ekki á mjög illa að fara.

„Hverjum dettur í hug að leita að því sem þegar er til miklu meira af en hægt verður að nota?“ spyr Stefán sem vill staðfesta viðauka við Marpol-samninginn til að geta sett strangari reglur um mengun í efnahagslögsögunni og banna urðun lífræns úrgangs. Þá sé nauðsynlegt, í þeirri stöðu sem við erum komin í, að ekki einungis umbuna fyrir það sem vel er gert, heldur taka fast á þeim sem ekki lúta leikreglum.

„Við verðum að nota vendi, ekki bara gulrætur. Kolefnisgjald er dæmi um vönd. Það þarf að verðleggja ótæka hegðun út af markaðnum,“ segir Stefán og lýsir eftir græna hagkerfinu, máli sem var klárað á Alþingi árið 2012 í þverpólitískri sátt.

„Skýrslan er til. Nú er ráð að dusta af henni rykið. Þar er fullt af mótuðum tillögum sem enn eru í fullu gildi,“ segir Stefán sem dregur feitt strik undir tafarlausar aðgerðir til rafvæðingar samgangna sem sjálfsagt viðbragð við stöðunni sem uppi er.

„En ég er að vissu leyti bjartsýnn. Núverandi ríkisstjórn, með umhverfisráðherra í broddi fylkingar, hefur sýnt þessum málaflokki miklu meiri áhuga en áður hefur þekkst. Þau þurfa bara að gera sér grein fyrir að það er ekki nóg að vinna fleiri góðverk. Það þarf líka að láta af vondum verkum. Hér verður ekki bæði sleppt og haldið,“ segir Stefán.

Sigurður Ingi Friðleifsson
Tólf ár til stefnu

Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, sem ritstýrði og vann að gerð skýrslu HHÍ, sagði í viðtali við Fréttablaðið á mánudag að það væru aðgerðir í hverjum einasta geira sem hægt væri að ráðast í og eru tæknilega mögulegar í dag. Nema í stóriðjunni. Margar þeirra geti skilað þjóðhagslegum ábata þegar horft er til lengri tíma. „Þetta er eins og með hitaveituvæðinguna sem var dýr – en það má líta rafbílavæðingu sömu augum,“ sagði Brynhildur.

Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, hefur að öðrum ólöstuðum helst haldið kostum rafbílavæðingar á lofti síðustu misserin. Hann, kjarnyrtur að vanda, segir að málið sé sprungið í andlitið á þjóðinni. „Ef við gerum ekki eitthvað stórtækt þá stöndum við ekki við skuldbindingar okkar. Það væri alger yfirmáta skandall fyrir land og þjóð, hneisa,“ segir Sigurður sem hefði viljað að stóriðjan væri klofin frá í skýrslunni og fjallað um hana sérstaklega. Ekki sé hægt að tala um skuldbindingar Íslands og stóriðju í sömu setningu, og því drepi það umræðunni á dreif að fjalla um hana samhliða öðru sem varðar alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum. Hann kastar fram þeirri spurningu af hverju nauðsynlegt sé að fjalla um stóriðjuna í þessu samhengi þegar útstreymi vegna millilandaflugs sé ekki metið.

Góðu fréttirnar eru, að mati Sigurðar, það sem er löngu vitað. Raforkuframleiðsla er afar kolefnislág á Íslandi; húshitun er kolefnisfrí á Íslandi og sjávarútvegur hefur þegar náð viðunandi samdrætti miðað við 1990.

„Þannig að nákvæmlega öll vötn renna til vegasamgangna. Þar verður að fara verulega grimmt inn. Sem betur fer eru allar lausnir tilbúnar og ekkert því til fyrirstöðu að kýla á þetta. Það verður einfaldlega að setja hærra verð á kolefnið og gera þannig loftslagsvænar lausnir meira aðlaðandi,“ segir Sigurður sem bendir á að ganga eigi hreint til verks með allar þær aðgerðir sem eru tiltölulega ódýrar og listaðar­ eru upp í skýrslunni – og eru þær margar.

Hann bendir á að það séu ekki nema tæp tólf ár til stefnu. „Ef þú kaupir nýjan bíl núna þá er líklegt að hann verði enn að skila neikvæðum tölum inn í bókhaldið okkar 2030 hvort sem þú átt hann þá eða einhver annar. Ákvörðunin um að kaupa hann var þín og hann er því á þína ábyrgð í bókhaldinu. Með öðrum orðum, þá verður alltaf stærri og stærri ákvörðun að kaupa ekki raf- eða metanbíl. Bílakaup mín geta því haft neikvæð áhrif á þig með þeim hætti að þú verður íbúi lands sem ekki stóð við skuldbindingar sínar – sem er afar neikvæð ímynd. Skýrslan segir okkur að bifreiðakaup eru ekki lengur einkamál hvers og eins og ekkert óeðlilegt við að þeim sé stýrt í ákveðna átt með sköttum og ívilnunum.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×